Valmynd leiðarkerfis
Laugavegurinn

Laugavegurinn

Laugavegurinn

Hálendið
  • Erfiðleikastig: 2
  • Vað: Nokkur, meðalerfið.
  • Næsta þéttbýli: Selfoss / Hvolsvöllur
  • Samgöngur: Áætlunarferðir á sumrin
  • Flokkur: ,

Vinsælasta lengri gönguleið  landsins og ein af þekktari og vinsælli gönguleið heimsins í dag. Gengin á tveimur – fjórum dögum, oftast þó líklega á þremur til fjórum dögum. Lagt er af stað í Landmannalaugum og gengið suður hálendið í Þórsmörk eða Bása. Leiðin er alls rúmir 53 km og er því hófleg ganga á þessum tíma.

Dagur 1. Landmannalaugar – Hrafntinnusker. 10,7 km. 4 – 6 klst. Hækkun ca 460 m.
Líklega sú dagleið sem mörgum reynist erfiðust en með mestu hækkunina. Lagt er af stað við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum. Gengið upp brekkuna upp á Laugahraunið og það þverað ef svo má að  orði komast. Stígurinn allan Laugaveginn er afar greinilegur og nokkuð vel stikaður. Eigi að síður er skynsamlegt að vera með feril í GPS tækinu og þá sérstaklega fyrsta daginn.

En við göngum að Brennisteinsöldu þar sem við leggjum á brattann. Nauðsyn er að stöðva við hverasvæðið og skoða þessa dásemd sem þar leynist. Um leið mætti hagræða bakpoka, reima skó og stilla magn af fötum. Leiðin liggur nú á brattann en litadýrð svæðisins fær flesta göngumenn til að gleyma því. Fljótlega ættum við að sjá gufu frá hverasvæði og eftir nokkra göngu komum við að Stórahver.

Hann er einn nokkura hvera á þessu svæði, kraftmikill goshver en austan við hann er stór hylur sem göngumenn ættu einnig að skoða vel. Hér er oft upplagt að gera góða pásu, fá sér snæðing og njóta svæðisins. Hér erum við rúmlega hálfnuð frá Laugum og alveg um hálfnuð frá Brennisteinsöldu.

Ef snæðing göngum við áfram og sjáum fljótlega Söðul á vinstri hönd. Við komum svo að vörðu, minnisvarða sem ættingjar Ídó Keinan reistu hér en hann varð úti hér árið 2004 í leiðindaveðri.  Gönguleiðin sveigir nú til vinstri inn að skerinu og svo aftur til hægri niður að Höskuldsskála þar sem göngu dagsins lýkur.

Ef göngumenn er enn með kraft í kroppnum má til dæmis fara í þessa kvöldgöngu.

Dagur 2. Hrafntinnusker – Álftavatn. 11.4 km. 4 – 5 klst. Engin hækkun en ca 500 m. lækkun. 
Fyrsti hluti leiðarinnar er meðfram Reykjafjöllum, Háskerðing og Kaldaklofsfjöllum. Hér skiptast á svartir sandar, snjóskaflar, jökulleifar og litrík hverasvæði. Áður en við komum fram á Jökultungur göngum við um nokkur gil þar sem litadýrðin ræður ríkjum. Litlir hverir hér og þar og vert að taka pásu og njóta svæðisins.

Eftir stutt labb í viðbót förum við yfir Jökulgil og fram á Jökultungur. Hér þarf svo sannarlega að henda af sér bakpokanum og draga fram myndavélina sé hún með í för. Í góðu veðri má sjá afskaplega vel yfir komandi göngusvæði. Álftavatn blasir við, vinstra megin er Hvanngil og þar við er Stórasúla og sandarnir ofan við  Emstrur.

Eftir að feta okkur niður brattar tungurnar er aðeins rúmlega hálftíma ganga að skálanum við Álftavatn. Við rætur brekkunnar er þó fyrsta áin sem þvera þarf, sjaldnast farartálmi en þó þannig að fara þarf úr gönguskóm og í vaðskó.

Upplagt er að fá sér létta kvöldgöngu eftir matinn.

Dagur 3. Álftavatn – Emstrur. 12.4 km. – 4 – 6 klst. Lítil heildarhækkkun.
Nokkuð létt og þægileg leið en þó þarf að þvera einar þrjár ár á leiðinni. Fyrst eru það tvær í minni kantinum á milli Álftavatns og Hvanngils og sú þriðja, Bláfjallakvísl er stærst en sjaldnast farartálmi.

Leiðin á milli Álftavatns og Hvanngils er mishæðótt ef svo má að  orði komast. Við göngum þar yfir Vegahlíð en sjáum fljótlega ofan í Hvanngilskrók þar sem skáli Ferðafélags Íslands er í Hvanngili. Stórgóð aðstaða og margir sem kjósa að ganga í Hvanngil í stað Álftavatns á degi tvö.

Eitt fallegasta fjall svæðisins blasir nú við okkur, sjálf Stórasúla 853 metrar á hæð. Við göngum hinsvegar áfram og förum yfir Kaldaklofskvísl á göngubrú enda væri oft erfitt að þvera hana. Stuttu síðar komum við að Bláfjallakvísl og þverum hana. Aldrei á að vaða á nema maður sé alveg viss um hvernig það skuli gera og hafa til þess reynslu.

Gangan næstu klukkustundir er frekar tilbreytingarlítil. Við göngum framhjá Hattfelli og litlu síðar litlum fellum með þeim skemmtilegu nöfnum Tudda og Tvíböku. Örstuttu síðar komum við fram á brúnir og sjáum nú vel yfir Markarfljótsgljúfur, Emstrur eða Botna og Almenninga. Einnig blasa við þeir bræður Eyjafjalla- og Mýrdalsjökull. Stuttur spölur er nú í skálana eða aðeins niður brekkuna.

Ganga kvöldsins er nú hálfgerð skylda en hana má sjá hér.

Dagur 4. Emstrur – Þórsmörk (Langidalur). 18.2 km. 6 – 8 klst. Hækkun ca 120 m.
Á þessari dagleið er líklega fjölbreyttasta landslagið þó vissulega megi slíkt hið sama kannski segja um fyrsta daginn. Hér byrjum við í svörtum söndum, þverum magnþrungin gljúfur á brú, göngum yfir í landslag sem einkennist af gróðri og kjarri og endum svo í skógi. Ótrúlega skemmtileg dagleið.

Við hefjum daginn á göngu yfir sanda, ekki ólíkt deginum á undan en þó er gróðurinn meira að taka yfir. Eftir stutt labb komum við að brattri brekku niður að brúnni á Fremri Emstruá. Dásamlegur staður. Smá brölt getur verið að komast niður að ánni, brúnni en á engum að vera ofviða enda höld til staðar. Aðeins þarf að staldra við á brúnni og virða fyrir sér gljúfrin. Hér er áin oft stór og forveri þessar brúar lét undan kröftum hennar.

Við göngum svo meðfram Fremri Emstruá um sinn en beygjum svo beint til suðurs. Þetta er skemmtilegur spotti og göngumenn oft léttir á fæti enda styttist í endastöð. Slyppugil og Bjórgil, hvort öðru fallegra verða á vegi okkar og upplagt að taka fyrstu pásu dagsins í öðru hvoru þeirra.

Nú erum við stödd á svokölluðum Almenningum eða í útjaðri þess svæðis en svo nefnist svæðið sem afmarkast gróflega af Þórsmörk, Markarfljóti, Emstrum og Mýrdalsjökli.

Kápa er síðasta fjall leiðarinnar, alls ekki bratt og þægilegt að fara yfir en oft andleg hindrun göngumann enda margir orðnir lúnir. Um leið og við komum niður af því blasir Þröngá við og Hamraskógur. Þröngá getur verið farartálmi og þarf að vanda bæði val á vaði og hvernig menn þvera. Ekki má falla í þá gryfju að fara yfir ánna þar sem stígurinn í Hamraskógi tekur við. Finna vað og ef göngumenn eru ekki öruggir með sig má freista þess að bíða næstu aðila og njóta aðstoðar þeirra.

Hamraskógur er sannkallað ævintýraland og síðasta klukkutímann er gengið á góðum moldarstígum um hann þar til komið er niður í Langadal þar sem Skagfjörðsskáli Ferðafélags Íslands bíður göngumanna.

 

 
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Áætlunarferðir á sumrin

Skildu eftir svar

Listings

Laugavegurinn

0