Valmynd leiðarkerfis
Á svig við Bíldsfell

Á svig við Bíldsfell

Á svig við Bíldsfell

Suðurland
  • Erfiðleikastig: 1
  • Vað: Ein smá spræna
  • Næsta þéttbýli: Selfoss
  • Hækkun: Um 40m.
  • Samgöngur: Einkabíllinn
  • Flokkur: ,

Við hefjum gönguferð okkar við Ljósafossvirkjun en í nágrenni hennar eru stærstu sumarhúsasvæði landsins, það er í Grafningi, Grímsnesi og við Þingvallavatn.  Leiðin sem við ætlum að ganga liggur frá Ljósafossvirkjun og eftir bílslóða niður að bænum Bíldsfelli.  Þetta er einkar skemmtileg leið sem kemur verulega á óvart og má bæði bæði ganga hana en ekki síður að draga fram fjallahljólin og hjóla leiðina.

Landsvirkjun hefur boðið upp á sýningar í Ljósafossvirkjun og má kanna hvort þar sé opið og byrja kannski á því að heimsækja hana.  Sjálf gangan hefst svo við afleggjara nokkrum metrum sunnan við brúna hjá Ljósafossi   Gengið er eftir fyrrnefndum vegslóða meðfram Soginu og gaman er að velta fyrir sér hvernig það liti út ef ekki væri virkjað.  Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér tilkomumikla fossa ef fyrrnefnd virkjun væri ekki til staðar.

Leið liggur svo eftir slóðanum með Sogið á vinstri hönd og kjarr á báðar hendur.  Þegar við erum um það bil hálfnuð eða rétt í þann mund er útsýni opnast yfir Grímsnesið og Suðurland skiptist vegurinn og veljum við hægri slóðann og er það alltaf gert þegar vegurinn skiptist.  Gönguleiðin sker sig töluvert úr öðrum þarna á þann hátt að svæðið er vel kjarri vaxið og fær maður stundum þá tilfinningu að maður sé staddur erlendis þá sérstaklega ef leiðin er hjóluð.

Fyrri hluti leiðarinnar liggur á milli tveggja fella, Búrfells til vinstri sem er skemmtilegt að ganga á, en á toppnum þar er lítið vatn.  Til hægri er hinsvegar Bíldsfell sem er ekki síður skemmtilegt að ganga enda opnast þar ekki mikið síðra útsýni en á Búrfelli.  Seinni hluti leiðarinnar liggur svo að hluta um land þeirra Bíldsfellsbænda og um leið njótum við mikils útsýnis eins og fyrr sagði yfir Grímsnes og Suðurland.

Við endum svo þessa gönguferð við elsta Bíldfellsbæinn og má til gamans geta að Guðmundur Þorvaldsson afi þeirra Bíldsfellsbónda nú var sá fyrsti til að rafvæða með vatnsafli sveitabæ hér á landi.  Var það gert í febrúar árið 1912 einungis nokkrum árum eftir að rafvætt var í borg.   Guðmundur var reyndar nokkur frumkvöðull í þessum málum í sveit og velti mikið fyrir sér hvernig hægt væri að nýta orkuna til að auðvelda sér og sínum störfin.

Nú er það val göngumanna hvort gengin er sama leið til baka en  eins og alltaf þegar “hin” leiðin er gengin blasir við allt öðruvísi útsýni.  Hinsvegar væri einnig hægt að fá einhvern göngulatan til að sækja göngumenn.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Einkabíllinn

Skildu eftir svar

Listings

Á svig við Bíldsfell

0