Valmynd leiðarkerfis
Fimmvörðuháls

Fimmvörðuháls

Fimmvörðuháls

Suðurland
  • Erfiðleikastig: 3
  • Vað: Brú yfir Skógá
  • Næsta þéttbýli: Skógar
  • Hækkun: Um 1036m.
  • Samgöngur: Rútur á Skóga og í Bása að sumarlagi. Á Skóga að vetrarlagi.
  • Flokkur: ,

Ein af fallegri gönguleiðum landsins. Útsýnið er blasir við þegar komið er fram á brúnir og horft yfir Bása, Almenninga og Þórsmörk er ólýsanlegt. Eitt VÁ, hvíslað af vörum þess sem gengur þar í fyrsta sinn er eitthvað sem ekki er óalgengt. Hér er leiðinni lýst miðað við að gengið sé frá Skógum yfir í Bása en líklega er það algengari leið. Síðustu árin ganga flestir meðfram Skógá en áður var veginum oft fylgt.

Gangan hefst við tjaldsvæðið við Skógarfoss. Líklega einn af tignarlegri og fallegri fossum landsins þar sem hann fellur um 60 metra fram af bjargbrúninni. Meðfram honum eru brattar tröppur sem marka fyrsta legginn á leið okkar. Alls eru rúmlega tuttugu fossar á leiðinni að þeim stað sem við göngum yfir ána. Hver er öðrum fallegri en um leið eru þeir ólíkir og ekki síður nöfnin á þeim en þó eru margir  þeirra án nafna svo vitað sé um að minnsta kosti. Hér verður þeim ekki lýst nánar en bent er á góða bók Sigurðar Sigurðssonar þar sem þeim er lýst með miklum ágætum.

Þó verður sá er þetta ritar að fá að njóta þeirra forréttinda að lýsa lítillega sínum uppáhaldsfossi en það er Fosstorfufoss. Það er þriðji fossinn á uppleið okkar og fellur skemmtilega í einum tveimur stöllum við beygju á ánni. Sé veður gott má reikna með um 3 – 4 klst göngu að göngubrúnni þar sem við förum yfir Skógá. Göngumenn verða að hafa í huga að gleyma sér ekki of lengi við hvern foss því nóg er eftir þar til á áfangastað er komið.

Þegar komið er yfir göngubrúnna fylgjum við stikum og víða ágætlega greinilegum slóða. Stefnan er á Baldvinsskála sem ekki að ósekju er uppnefndur „Fúkki“. Sé veður ekki þeim mun verra fer allt eins vel um göngumenn utan skálans. Þetta stendur þó til bóta því Ferðafélag Íslands hefur eignast skálann og til stendur að gera hann vel upp. Við höldum áfram, göngum niður brekku og höldum rólega á brattann. Hér er oftar en ekki gengið á snjó þó komið sé langt fram á sumar. Við erum í jaðri Mýrdalsjökuls og á landakortum er þetta oft merkt sem jökull. Sandhryggir sýna okkur þó stikur á leið okkar og oftast má sjá greinilega för í snjónum. Þessi gönguleið er þó þannig að kort, áttaviti og GPS tæki þarf að vera með í för svo og þekking á notkun.

Fljótlega glittir í  Fimmvörðuskála á ská til vinstri, klukkan 10 – 11 eins og sagt er. Við stefnum þó ekki beint á hann heldur á „vegamót“, skilti rétt ofan litla en bratta brekku. Leiðin liggur beint áfram en það er freistandi að taka smá útúrdúr og fá sér nesti í góðum skála Útivistar, Fimmvörðuskála. Sú ganga tekur ekki nema 10 – 15 mín. Hér er líka upplagt að velta fyrir sér örnefninu Fimmvörðuháls. Talið er að nafnið komið frá fimm vörðum sem voru vestast á hryggnum, hálsinum sem skálinn stendur á. Lengi vel mátti sjá leifar þeirra en ómögulegt er að segja hvort hafi komið fyrst, nafngiftin eða vörðurnar.

Eftir góðan snæðing höldum við för áfram. Nú nálgast nýja hraunið sem hlaut nafnið Goðahraun. Gönguleiðinni var aðeins breytt árið 2011 til þess að göngumenn fengu notið þessa mögnuðu jarðhræringa sem hér áttu sér staðið árið 2010. Í raun er það svo að við sjáum ummerki um gosið meira og minna alla leið niður á Morinsheiði og lengur ef við horfum í gilin þar við. En gígarnir tveir sem gusu fengu nafnið Magni og Móði. Nöfnin eru sótt í goðafræði en Magni og Móði voru synir Þórs, þrumuguðsins sjálfs. Goðahraun vísar svo einnig til goðanna en um leið til Goðalands þar sem Básar eru en þangað rann hraunið, meðal annars niður Hvannárgil.

Bröttufönn ætti nú að blasa við en sé varlega farið ætti hún ekki að reynast farartálmi. Ekki er þó lengra síðan en kannski 20 – 30 ár en þá var hún brattari og mun erfiðari yfirferðar. Rétt er þó að fara varlega og jafnvel að hafa við hendina ísexi eða góðan göngustaf. Neðan Bröttufannar komum við að Heljarkambi en rétt er að benda á nafnið er mun ógvænlegra en kamburinn sjálfur. Í raun er um að ræða hrygg sem tengir saman Bröttufönn og hina marflötu Morinsheiði. Á Heljarkambi eru höld, kaðlar og keðjur til stuðnings og sé farið varlega ætti það engum að reynast ofraun.

En gleymum ekki útsýninu sem nú sést. Horft er yfir Þórsmörk og Almenninga og í góðu veðri er nauðsyn að stoppa og horfa vel og lengi í kring um sig.

Morinsheiði er sérkennilegur staður. Því sem næst rennislétt og þá um leið þægileg til göngu. Ekki er ljóst hvaðan nafnið kemur en helst hefur verið kastað fram að heiðin sé nefnd eftir William Morris, englendingi sem hér ferðaðist mikið síðla nítjándu aldar. Ekki eru þó neinar sögur til um að hingað hafi hann komið.

Neðan Morinsheiðar förum við eftir Kattarhryggjum, örmjóir hryggir og sitthvoru megin eru Strákagil og Þvergil. Nú styttist hratt í Bása og fljótlega komum við að Fálkahöfði, litlum klettahól sem skilur að Kattahryggina og Strákagilið. Þangað fetum við okkur niður og göngum eftir gilinu niður að Básum, frábærum stað sem Útivist hefur byggt upp að miklum myndarskap.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Rútur á Skóga og í Bása að sumarlagi. Á Skóga að vetrarlagi.

Skildu eftir svar

Listings

Fimmvörðuháls

0