Valmynd leiðarkerfis
Fjaðrárgljúfur

Fjaðrárgljúfur

Fjaðrárgljúfur

Suðurland

Eitt af fallegustu náttúruundrum landsins. Leið okkar liggur rétt vestan við Kirkjubæjarklaustur, inn framhjá Hunkubökkum og að bílastæði neðan gljúfranna. Þar löbbum við upp með gljúfrunum austan meginn og sömu leið tilbaka.

Líklegast er talið að Fjaðrárgljúfur hafi orðið til fyrir um níu þúsund árum síðan. Þá hefur líklega áin verið mun stærri og með hjálp sands og aurs frá jökli sorfið niður hjallana og myndað gljúfrin. Þar sem við hefjum för er gljúfrið ekki hátt en það hækkar hratt og hæst er það um 100 metra hátt. Fjaðrá kemur langt ofan af heiðum, hún sprettur upp í Geirlandshrauni en í hana fellur meðal annars Selá. Fjaðrá er  þó ekki stór á sem slík og því geta göngumenn hæglega kosið að ganga inn gljúfrin en þá þarf að vaða alloft. Innst í gljúfrinu eru þó fossar svo ekki er hægt að komast upp úr því nema sömu leið tilbaka.

Við höldum hinsvegar upp með gljúfurbarminum. Stígurinn er þægilegur og augljós. Víða á leiðinni fer slóðinn fram á góða útsýnisstaði þar sem má sjá fegurð og fjölbreytt munstur bergsins. Hafa skal þó aðgát því hált getur verið  og laust fremst á brúnum.

Þegar við komum „upp á“ heiðina blasir við hálfgerður dalur sem afmarkast af Kirkjubæjarheiði og Steinsheiði. Þar var búið áður fyrr en nú eru þar bara tóttir af býlinu Heiðarseli. Við sjáum nú hluta af þeim fossum sem falla niður í gljúfrið og marka þannig enda þeirra.

Á eldri kortum má sjá að áin heitir Fjarðará en núverandi nafn finnst þeim er þetta ritar mun fallegra og sérstæðara. En við höldum aftur niður brekkurnar og dáumst enn og aftur að því hversu fjölbreytt móbergið er hér og hvernig áin hefur grafið inn dældir og geilar.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

    Skildu eftir svar

    Listings

    Fjaðrárgljúfur

    0