Valmynd leiðarkerfis
Þyrilsnes

Þyrilsnes

Þyrilsnes

Vesturland

Hér er um að ræða skemmtilega og þægilega gönguleið sem hentar flestöllum. Nýtt sjónarhorn á Hvalfjörð og fjallendið blasir við göngumönnum ásamt sýnishorni af fornum búháttum og stríðsminjum. Gengið um þægilegan veg og grasi vaxin svæði. Falleg náttúra og minjar í bland. Hentar öllum enda því sem næst slétt leið og á ágætis undirlagi.

Beygt er út af veginum rétt eftir að ekið framhjá Hvalsstöðinni sé komið frá Akranesi. Afleggjarinn blasir ekki augljóslega við fyrr en rétt í þann mund sem hann sést svo gott er að hægja á sér þegar ekið er upp brekkuna. Bílastæði er þar sem gangan hefst. Rétt er að benda á að æðarvarp er í Þyrilsnesi og því verða göngumenn að halda sig fjarri frá um miðjum maí til 20 júlí.

Gönguleiðin eltir gamlan slóða rúmlega 2ja kílómetra leið þar til komið er út á enda á nesinu eða því sem næst. Á leiðinni er gengið fram hjá minjum um veru breta og bandaríkjamanna sem voru með loftvarnabyssur yst á Þyrilsnesi í seinni heimsstyrjöldinni. Farið er framhjá sökklum og rústum af búðum þeirra og geymslum en minni ummerki má sjá um sjálfar byssurnar. Ekki var Þyrilsnesið aðlaðandi fyrir hermenn sem kölluðu það Krákuhreiðrið eða „Crows Nest“. Þeir áttu þó töluvert samsipti við heimafólk sérstaklega íbúa á bænum Þyrli.

Skemmtileg náttúrusýn opnast göngumönnum með hverjum metra sem gengið er utan á nesið. Nauðsynlegt er að stöðva af og til og líta á fjallahringinn sem opnast þar sem Þyrill og Botnssúlur draga líklega auga flestra til sín. Þegar komið er yst á nesið blasir Geirshólmi við en hann er talinn fá nafn sitt frá fóstbróður Harðar í Harðarsögu en sögusvið þeirrar sögu er hér allt um kring. Í Geirshólma er einnig æðarvarp en áður var þar einnig lundarvarp en hann hvarf á stríðsárunum þegar bandamenn notuðu hólmann sem skotmark. Eitt örnefni á nesinu, Arnarstandur gæti bent til þess að ernir hafi orpið þar áður fyrr.

Þegar komið er yst á Þyrilsnes má annað hvort ganga tilbaka eftir slóðanum eða ganga út á brúnin nær landi og fylgja henni meira og minna upp á Harðarhæð en svo heitir hæðin sem hæst er á nesinu. Þaðan má fara beint á slóðann aftur og að bílastæðinu.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

    Skildu eftir svar

    Listings

    Þyrilsnes

    0