Valmynd leiðarkerfis
Umhverfis Elliðavatn

Umhverfis Elliðavatn

Umhverfis Elliðavatn

Höfuðborgarsvæðið
  • Erfiðleikastig: 1
  • Vað: Göngubrú yfir á
  • Næsta þéttbýli: Kópavogur / Reykjavík
  • Samgöngur: Strætisvagn í Norðlingaholt.
  • Flokkur: ,

Ágætlega drjúg ganga en alls ekki erfið. Kemur nokkuð vel á óvart enda gaman að upplifa breytingar og fjölbreytni umhverfis Elliðavatns. Við hefjum gönguna við Elliðavatn, bæinn. Bílinn skiljum við eftir á bílastæðinu og göngum beint niður að vatninu. Við eltum þar góðan göngustíg og má segja að hann leiði okkur hálfan hringinn.

Þegar við komum að Þingahverfinu í Kópavogi eltum við til skiptis stíga og götur að Elliðastíflu. Þar förum við í hálfgert U og förum svo stíg í útjaðri Norðlingaholts. Sá stígur leiðir okkur að veginum rétt fyrir ofan Rauðhóla og er þá skammur spölur aftur að bílnum. Góður hringur að baki.

Við hefjum gönguna hjá Elliðabænum sem nú hýsir starfsemi Skógræktarfélagsins hér í Heiðmörk. Áður var Elliðabærinn í alfaraleið. Þjóðleiðin til Reykjavíkur lá suður fyrir Elliðavatn svo ferðalangar þyrftu ekki að ríða Elliðaárnar. Var því oft gestkvæmt á bænum. Einar Benediktsson skáld fæddist á Elliðabænum árið 1864. Sagan segir að hann hafi oft riðið suður fyrir vatnið á leið sinni til Reykjavíkur og vegna þess hví myrkfælinn hann var hafi hann því stundum fengið sér aðeins of mikið neðan í því á leiðinni.

Við eltum stíginn sem liggur meðfram vatninu. Yfir vatnið má sjá hvað byggðin hefur vaxið vestan þess. Fuglalíf er umtalsvert við vatnið og víða við stíginn má finna fræðsluskilti Skógræktarfélagsins um fuglalíf og gróður. Eftir stutta göngu komum við einum merkasta stað okkar Íslendinga, Þingnesi.

Þingnes er líklega fyrsti þingstaður okkar Íslendinga en um eða eftir árið 900 er talið að Kjalnesingaþing hafi verið haldið hér. Staðurinn hét áður Krossnes en Jónas Hallgrímsson sem fyrstur hóf uppgröft hér nefndi hann Þingnes. Þjóðminjasafnið gróf síðar á staðnum og fann hringlaga byggingu en hluti hennar er talin vera frá árinu 900. Í dag er sumarhús á staðnum en ágætis upplýsingaskilti fræðir okkur göngufólk.

Áfram er gengið, fyrir Vatnsvík og fljótlega sjáum við vel Þingahverfið. Best er að ganga Elliðahvammsveginn yfir í Granda- og Fornahvarf. Þá blasir við okkur Elliðavatnsstíflan. Meðalrennsli Elliðaá er um 5,5 teningsmetrar á sekúndu en oft fer það niður í um fimmtung af því. Stíflan var reist árið 1926 og við það fóru svokölluð Elliðavatnsengi á kaf. Við það breyttist og minnkaði fuglalíf á svæðinu.

Við göngum áfram, förum í hálfgert U yfir brú og yfir í Norðlingaholt. Þaðan liggur stígur að Heiðmerkuvegi og þaðan er örstutt að upphafsstað okkar.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Strætisvagn í Norðlingaholt.

Skildu eftir svar

Listings

Umhverfis Elliðavatn

0