Valmynd leiðarkerfis
Sveinstindur

Sveinstindur

Sveinstindur

Hálendið

Í stuttu máli  er Sveinstindur (1.090 m.y.s.) eitt flottasta útsýnisfjall landsins ef skyggni er gott. Ekki er það endilega svo að svo margt sjáist þó vissulega sé það þannig heldur er útsýnið magnþrungið. Lakagígar, Langisjór, Vatnajökull og Fjallabakið. Gönguleiðin er nokkuð auðveld þó á brattann sé.

Stígurinn er vel greinilegur enda má búast við töluverðum erli á Sveinstindi að sumarlagi í góðu veðri.
Þegar ekið er að fjallinu beygir vegslóðinn til hægri og þá má segja að finna megi göngustíginn beint framundan á nokkuð greinilegum hrygg.

Líklegt má telja að þeir sem standi á toppi Sveinstinds gleymi seint útsýninu. Blár, grænn, grár eða hvernig sem litirnir eru blasir Langisjór við þar sem hann teygir sig heila 25 kílómetra út frá Vatnajökli. Fögrufjöll, kolbikarsvört með grænum „slettum“ hér og þar eru svo skemmtileg andstaða. Og hvert sem horft er má sjá einstæðar perlur.

Suður frá Sveinstind blasa Lakagígar við og til austurs má sjá Vatnajökul í allri sinni dýrð. Þar sést oft til svarts Pálsfjallsins og snævi þakinnar Þórðarhyrnu. Sagan segir að einhverjir hafi talið sig sjá alla leið vestur til Eiríksjökuls en hvort satt er skal látið kyrrt liggja. Öruggt er þó að í vesturátt má oft sjá Heklu.

Tindurinn er nefndur eftir Sveini Pálssyni lækni og ferðamanni en það var Þorvaldur Thoroddsen náttúrfræðingur sem á heiðurinn af nafninu. Sveinn er talinn hafa gengið fyrstur manna á fjallið. Þar til Þorvaldur rannsakaði svæðið í lok 19. aldar var það frekar fáfarið. Skaftfellskum bændum þótti víst lítið til þess koma en vitað er af ferðum þeirra þarna í leit að haga um 1.884.

Þá nefndu þeir Langasjó Skaftárvatn en sem betur festist það nafn ekki. Það var svo Þorvaldur sem gaf Langasjó sitt nafn og einnig nefndi hann Fögrufjöll.

Suðvestan undir fjallinu er Ferðafélagið Útivist með skála sem þeir nefna eftir fjallinu. Ein vinsælasta gönguleið þeirra hefst á Sveinstindi en þaðan er gengið í Skælinga, um Eldgjá og í Hólaskjól. Oft er þá farið niður af fjallinu vestanverðu. Það er aðeins brattara en ætti að vera flestum kleift. Á leiðinni er líklegt að göngumenn veiti athygli steinhleðslu. Talið er að Þorvaldur hafi hlaðið hana til varnar tjaldi sínu. Ekki kannski besta tjaldstæði landsins en klárlega fágætt að fá betra útsýni.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

    Skildu eftir svar

    Listings

    Sveinstindur

    0