Valmynd leiðarkerfis
Lóndrangar

Lóndrangar

Lóndrangar

Vesturland
  • Erfiðleikastig: 1
  • Vað: Ekkert vað
  • Næsta þéttbýli: Hellnar
  • Hækkun: Um 1m.
  • Samgöngur: Einkabíll
  • Flokkur: ,

Við hefjum gönguna við húsin á Malarrifi. Lagt er við efsta húsið og við næsta hús hefst stígurinn. Hann er mjög greinilegur, stikaður og liggur meðfram fjörunni að Lóndröngum. Stígurinn er fær öllu göngufæri fólki en á smákafla rétt við Lóndranga er gengið i fjörugrjóti. Það gæti reynst eldra fólki erfitt en með smá stuðningi komast þetta allir. Við hækkum okkur svo um 10 – 20 metra rétt við drangana. Gengin er sama leið til baka.

Á Malarrifi var lengi búskapur og réru bændur þar til fiskjar þótt lendingin hafi verið ansi erfið. Upphaflega er talið að Malarrif hafi heitið Möl og ekki þarf að ganga lengi um svæðið til að skilja þá nafngift. Í dag eru húsnæðin hér nýtt sem sumarhús. Malarrif eru syðsti oddi Snæfellsnes og eru beint í suður frá jöklinum sjálfum. Segja heimamenn að hvergi njóti jökullinn sín eins vel.

Við göngum frá Malarrifi eftir stígnum í átt að Lóndröngum. Rekaviður, gömul net, netakúlur og annað liggur hér um allt enda getur sjórinn kastast tugi metra á land hér þegar vindur er sterkur. Fjörugrjótið er sem pússað hafi verið með fínasta sandpappír svo árum skiptir svo slétt og fínt er það.

Þegar við nálgumst drangana má velta fyrir sér tröllkallinum Lóndrangi. Hann girntist bæði tröllskessuna í Kerlingarskarði og ekki síður þá er bjó á  Djúpalónssandi. Þegar hann og skessan í Kerlingaskarði ætluðu að hittast voru þau sein fyrir og urðu að steini. Þau sitja því þarna ferðalöngum til ánægju og yndisauka. Útgáfa jarðfræðinga af tilurð Lóndranga er aðeins önnur. Áður var þarna stór gígur sem nú er hofinn að mestu leyti. Aðeins sér móta fyrir einni brún hans þegar horft er á Svalþúfu. Lóndrangar eru gígtappar sem mynduðust í gígnum. Sá hærri er 75 metrar og sá lægri 60 m.

Ganga okkar endar við drangana en þá má lengi virða fyrir sér. Litlu lengra blasa við sjávarklettarnir í Svalþúfu. Þar er fuglabjarg mikið og fyrir þá sem vilja má ganga þangað. Leið okkar liggur svo sömu leið tilbaka og endar gangan við bílastæðið hjá Malarrifi.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Einkabíll

Skildu eftir svar

Listings

Lóndrangar

0