Þetta er stutt og þægileg ganga og hentar afskaplega vel til að brjóta upp langan bíltúr t.d. milli Reykjavíkur og Akureyrar, þá sérstaklega þegar ungt fólk er með í för.
Bærinn Stóra-Giljá er rétt vestan við Blönduós og hefst gangan við bílastæðið við ána eða bæinn, hægra megin þegar ekið er norður og gengið er vinstra megin við ána um einn kílómetra upp með ánni og svo tilbaka aftur. Þetta er skemmtileg ganga meðfram fallegum gljúfrum og endar við skemmtilegan foss, Efstafoss. Nokkrir fossar eru í gljúfrunum og því margt að skoða bæði fyrir þá eldri og yngri. Oft má finna þarna góð berjalyng og þarf jafnvel að beita fortölum á yngri göngumenn svo hægt sé að halda áfram.
Þegar gangan upp með gljúfrunum er um það bil hálfnuð komum við að Ranafossi sem er við lítinn rana sem gengur út í ána. Við þennan rana er gamalt hús sem einu sinni gegndi hlutverki rafstöðvar sem nú er aflögð, við ætlum að skoða stöðina á bakaleiðini og héldum áfram upp að Efstafossi en þegar komið er að honum sjáum við girðingu sem liggur þvert á leið beint að fossinum.
Á niðurleiðinni er svo rafstöðin könnuð en hún var byggð árið 1930 og er eindregið mælt með því að klöngrast niður að henni og er það vandalítið. Það er verulega gaman að sjá hvernig hönnuðir þessar stöðvar hafa nýtt sér fallhæðina til að fá kraftinn er þurfti til framleiðslu rafmagns. Þar sem þessar gömlu minjar eru mjög heillegar er upplagt að segja yngri þáttakendum frá því hvernig rafmagn verður til og oft verða þeir agndofa og velta mikið fyrir sér hvernig vatn gæti búið til ljós ?
Klöngrast þarf upp aftur á sama stað þó freistandi sé að fara niður gilið en þar eru brattar skriður sem þó má vel komast upp ef fólk vill.
Göngulok er svo aftur á bílastæðinu.