Ansi góð og þægileg gönguleið inn að Strútslaug þar sem má baða sig í heitri lauginni. Við leggjum í hann við Skófluklif, rétt austan við Strútsskála Ferðafélagins Útivistar. Hér erum við í raun á hinum vinsæla Strútsstíg. Stígurinn er augljós og þægilegur til göngu og hentar því flestu göngufæru fólki. Litlar hækkanir á leiðinni og eftir rúmlega hálftíma sjáum við yfir Hólmsárbotna og að lauginni sem liggur undir Laugarhálsi. Við förum svo sömu leið tilbaka.
Stuttur akstur er að Skófluklifi frá Strútsskála og því í raun lítið mál að ganga þá vegalengd. Strútslaug er ein af nokkrum heitum laugum við Hólmsárlón en líklega sú stærsta og sú eina sem notuð hefur verið til baða, að minnsta kosti undanfarin ár. Önnur laug, mun minni er þarna líka og nefnist Hrútslaug. Nafnið fékk hún því þar drukknaði hrútur eitt sinn.
Vilja gárungar meina að Strútslaug og Hrútslaug séu sama laugin, nafninu hafi veri breytt til að fæla fólk ekki frá lauginni. Beinagrind hrútsins megi finna sé tánum krafsað niður í leirinn. Rétt er að taka það fram að engar heimildir hafa fundist til að styðja þessa sögu.
Stór grasbali er ofan við Strútslaug og var þar forðum náttstaður gangnamanna. Þarna hittust stundum Rangvellingar og Skaftfellingar og smöluðu saman svæðið. Þess má geta að Rangvellingar nefndu Strútslaug Hólmsárbotnahver. Ofan við Strútslaug eru snarbrattar hlíðar og þar ofar er Torfajökull. Við erum því við jaðar eins stærsta háhitasvæðis landsins og um leið stærsta líparít (rhyolít) svæði landsins.
Því miður er það svo að umgengni á svæðinu er ekki alltaf nógu góð. Oft má finna þarna leifar af mat og jafnvel mannaúrgangi en slíkt verður að teljast algerlega óásættanlegt og til lasts þeim er gera.
Eftir gott bað höldum við tilbaka og á bakaleið blasir við okkur einkennisfjall staðarins, Strútur, 968 m.y.s. en hann heitir reyndar Meyjarstrútur fullu nafni. Er nafnið með vísan í að áður fyrr notuðu konur höfuðbúnað sem minnti á strút og var kallað því.