Valmynd leiðarkerfis
Kerhólakambur á Esju

Kerhólakambur á Esju

Kerhólakambur á Esju

Höfuðborgarsvæðið

Skemmtileg leið á Esju og fín tilbreyting frá þeirri vinsælustu en þó aðeins erfiðari. Við skiljum bílinn eftir rétt við bæinn Esjuberg á Kjalarnesinu. Þar göngum við að nokkuð greinilegum gilskjafti. Stígurin er að mestu greinilegur en á köflum þarf að stika skriður og klöngra örlítið. Eftir að við komum upp úr gilinu stefnum við á kambinn sjálfan eða klett í honum. Nokkru neðar við klettinn göngum við í góðan sveig upp á hrygg sem leiðir okkur á Kerhólakamb. Við förum svo nákvæmlega sömu leið tilbaka.

Frá Kerhólakambi er gott útsýni eins og víðast hvar af vesturhluta Esju. Beint fyrir neðan okkur sjáum við Gljúfurdal og í honum eru þrjú mikil gil. Vestast er Árvallagil, svo Hestgil og síðast Sauðagil. Hamrarnir sem eru þar fyrir framan og við gengum í gegnum má segja kallast Búhamrar. Þar eru margar vinsælar klifurleiðir. Við sjáum einnig yfir allt höfuðborgarsvæðið og fjallgarðana þar í kring og eitthvað sjáum við glitta ofan í Blikdal en þangað er snarbratt að fara.

En skoðum leiðina aðeins nánar. Þegar við komum upp úr gilinu er heitir Bolagil stefnum við eins og áður sagði á klett eða drang. Þegar við nálgumst hann göngum við á hól, Níphól og við hann er Laugargnípa. Þaðan tökum við sveig til austurs á hrygginn sem leiðir okkur á Kerhólakambinn sjálfan. Þeir sem eru með góða sjón geta nú horft yfir á Þverfellshorn og séð þar líklega fólk á vappi.

Nafngift Kerhólakambs er ekki alveg á hreinu en Einar Kristjánsson varpar því fram hugleiðingum um það í ársriti Útivistar frá árinu 1984. Hann bendir réttilega á að sunnan við Kambshornið sem er hryggurinn sem við göngum eftir upp á Kerhólakamb séu margir smáir hólar og öldur sem einkenna brekkuna, hvilftina niður eftir fjallinu. Þar spretta víða fram lindir með vatni og af því sé nafnið komið, það er Kerhólar og þá Kerhólakambur toppurinn fyrir ofan.

Lengd gönguleiðar

    Skildu eftir svar

    Listings

    Kerhólakambur á Esju

    0