Þægileg ganga á lítið fell sem er þó með ágætis útsýni yfir sumarhúsabyggðir svæðisins.
Gönguleiðin hefst efst á bílastæði í Skyggnisskógi. Þaðan er gengið eftir vegarslóða sem liggur svo til beint í norður að Miðfelli. Á hægri hönd er Mýrarskógur og handan hans má virða fyrir sér fögur gil sem blasa við í fjallendinu í undirhlíðum Bjarnarfells. Á vinstri hönd er Úthraun, þéttvaxið birkiskógi. Þegar komið er nær sjáum við Miðfellsháls er gengur suðaustur frá Miðfelli. Gönguleið okkar liggur upp rétt við hann.
Efst í Miðfellshálsinum, rétt í þann mund sem komið er upp úr birkitrjánum er Skjónulaut, upplagður staður til hvíldar en ekki síður til berjatínslu á haustdögum.
Miðfell er 525 metra hátt og hentar því vel öllum fullfrískum gönguhrólfum. Þrátt fyrir að liggja ekki hærra er útsýni gott fyrir sumarhúsabyggðir svæðisins.