Stutt og skemmtileg gönguleið en þó örlítið óslétt á köflum. Í raun synd að bara hluti þeirra sem heimsækja Djúpalónssand skuli tölta þarna yfir. Gönguleiðin hefst neðst í sandinum, hægra megin ef horft er yfir sjóinn. Hún liggur í gegnum hraunið yfir í Dritvík. Við göngum svo sömu leið til baka aftur.
Hið fyrsta sem blasir við þeim sem ganga niður í Djúpalónssand eru þrír steinar en voru fjórir áður. Hér reyndu verbúðarmenn sig á aflraunum og bera nöfnin vott um hvað a virðingu menn öfluðu sér ef þeir gátu lyft þessum steinum. Sá léttasti heitir Amlóði og er 23 kg., sá næsti er Hálfdrættingur og er 49 kg. Svo kemur Hálfsterkur 140 kg og Fullsterkur 155 kg.
Innst á Djúpalónssandi er tjörn er Svörtulón heitir. Framan við hana er Gatklettur. Miklar verbúðir voru í Djúpalónssandi og dvöldu þar tugir ef ekki hundruðir manna þegar mest var. Þar þótti reimt og var meðal annars hellir þar kallaður Draugahellir. Um sandinn liggur víða ryðgað járn og er það úr togaranum Epine frá Grimsby sem strandaði þarna árið 1948. Þar drukknuðu fjórtán skipverjar en fimm lifðu skipbrotið af.
En við göngum yfir í Dritvík, þetta er rétt um eins kílómetra leið en örlítið óslétt á köflum. Það þarf að hafa í huga ef yngri kynslóðin er með.
Í Dritvík var ein stærsta verstöð landsins um tíma. Eru þar taldnir hafa verið á milli 600-700 vermenn þegar mest var. Útræði hófst í víkinni um miðja sextándu öld og stóð samfleytt í um þrjúhundruð ár. Mjög stutt var á góð fiskimið úr Dritvík.
Göngumenn veita því eflaust athygli að leifar af mjög fáum þurrabúðum má sjá í Dritvík. Ástæðan fyrir því er að þar hlóðu vermenn veggi og tjölduðu yfir þá. Tjöldin voru svo tekin niður að vertíð lokinni.
Í Dritvík er gamalt neyðarskýli frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og eru uppi hugmyndir um að gera skýlið að safni í samstarfi við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.