Létt og þægileg leið sem hefst á bílastæðinu við Hljóðakletta. Þaðan er gengið í átt að Jökulsá eftir merktum og stikuðum stíg. Gengið er að útsýnisstað þar sem sést vel yfir þau klettahjón. Þaðan er farin sama leið til baka.
Karl og Kerling eru talinn vera tröllahjón sem döguðu uppi þarna eftir eitthvert næturbröltið. Minni drangurinn er sagður vera kerlingin en sú stærri karlinn. Glöggir göngumenn gætu áttað sig á misræmi hér því í mörgum, jafnvel flestum tröllasögum er kerlinginn stærri og frekari. Það má klárlega sjá á þekktasta tröllapari okkar íslendinga, þeim Grýlu og Leppalúða.
Aðrir vilja meina að klettadrangarnir hafi myndast í þeim hamfarahlaupum sem skópu Ásbyrgi fyrir annarsvegar 8 – 10 þúsund árum og hinsvegar 3 þúsund árum. Fyrri sagan er hinsvegar mun skemmtilegri, sérstaklega þegar haft er í huga að aldrei skal láta góða sögu gjalda sannleikans.
Rétt fyrir neðan þau hjón var eitt af ferjuleiðum bænda á svæðinu. Þeir notuðu báta til að ferja vistir, fé og fólk yfir ánna. Má ljóslega sjá að slíkt hefur verið vandaverk enda áin lítt frýnileg jafnvel í sínum minnsta ham.
Gönguleið okkar liggur svo sömu leið til baka. Hægt er að brölta niður á eyrina að þeim hjónum en þá lengist leiðin um ca hálfan kílómetra og hálfa klukkustund. Það er ekki jafngreiðfært og slóðinn er hér.