Valmynd leiðarkerfis
Inn á dal við Kirkjubæjarklaustur

Inn á dal við Kirkjubæjarklaustur

Inn á dal við Kirkjubæjarklaustur

Suðurland
  • Erfiðleikastig: 1
  • Vað: Ekkert
  • Næsta þéttbýli: Kirkjubæjarklaustur
  • Hækkun: Um 40m.
  • Samgöngur: Almennings á Klaustur, einkabíll eða labb þaðan
  • Flokkur: ,

Við erum stödd rétt norðan við Kirkjubæjarklaustur, nánar tiltekið við bæina Mörk og Geirland. Ekki algeng örnefni og þegar landakortið er skoðað má sjá þau nokkur sérstök hér í kring. Á sem heitir Rásin og önnur slík sem ber nafnið Stjórn. Blesahraun og Kylli – stafa – sjást líka og síðast en ekki síst Landnyrðingur.

Leið okkar liggur inn í dal eins og heimamenn nefna þessa stuttu gönguleið sem kemur þó verulega á óvart. Við hefjum leið okkar á milli þessara tveggja bæja og höldum inn dalinn. Best er að leggja við heyrúllur rétt vestan við brúnna yfir Merkuá, neðan Geirlands. Þar við er göngubrú yfir ánna og þægilegast er að halda sig vestan girðingarinnar sem liggur inn dalinn.

Á Geirlandi er núna rekið myndarlegt sveitarhótel og segja margir að hvergi sé hægt að fá betri skyrtertu hér á landi en akkúrat þar. Þarna var áður rekin fyrsta sveitaverslunin þegar komið var austur fyrir Mýrdalssand. Hana rak Vigfús Jónsson frá því rétt fyrir aldamótin 1900 þar til árið 1914.

Sonur hans Sigfús var einn af þeim sem nefndir voru hinir skaftfellsku túrbínusmiðir. Var hann afkastamikill sem slíkur og smíðaði meira en 30 vatnsaflsstöðvar, þar af 26 í Vestur Skaftafellsssýslu. Rétt um miðja síðustu öld réðst hann í miklar framkvæmdir á Geirlandi. Hann virkjaði Merkurána sem rennur úr dalnum, reisti þar rafstöð sem veitti þremur bæjum næga orku. Sjást enn töluverðar minjar um þessa miklu framkvæmd þessa tíma.

Þegar innar í dalinn er komið sést Merkuráin falla þar niður í fallegum fossi. Umhverfis fossinn er afar fallegt en örlítið sérkennilegt stuðlaberg. Virðist það afar marglitt að sjá þegar um það leikur sól, úði frá ánni og jafnvel einstaka vatnsskvetta.

Þetta stuðlaberg er líklegast orðið afar gamalt en Þorleifur Einarsson lýsir myndun stuðlabergs þannig að “það myndast vegna samdráttar í kólnandi efni. Þegar basaltbráð kólnar er hún orðin fullstorkin við um 1000°C hita. Eftir það kólnar bergið, dregst við það sama og klofnar í stuðla sem tíðum eru sexstrendir”

Eftir að hafa virt fyrir okkur stuðlabergið, fossinn og hamrana umhverfis göngum við aftur til baka og ef til vill er óvitlaust að skottast inn á Hótel Geirland og fá sér skyrtertu hjá Erlu húsfreyju.

Ganga þessi er ekki nema um þrir kílómetrar og að mestu á sléttu og þægilegu landslagi. Hentar hún því öllum og má sérstaklega mæla með henni fyrir áhugamenn um jarðfræði, fyrir ljósmyndarr og börn á öllum aldri.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Almennings á Klaustur, einkabíll eða labb þaðan

Skildu eftir svar

Listings

Inn á dal við Kirkjubæjarklaustur

0