Eitt af fallegri fjöllum landsins og nokkuð skemmtilegt til göngu. Áður en gangan hefst þarf þó að aka frá Borgafirði Eystra um fjallvegi að Hvítserk og til þess þarf jeppa eða góðan fjórhjóladrifin bíl.
Hvítserkur dregur nafn sitt af lit fjallsins en meginefni þess er ljós líparítgjóska en dökkir berggangar liggja um fjallið þvers og kruss. Þeim er þetta ritar finnst fjallið fallegast áhorfs úr suðri en til þess þarf að keyra örfáa kílómetra lengra og njóta útsýnis þaðan.
Gangan á fjallið hefst beint vestur af fjallinu, stefnt er beint á vesturhlið þess og hryggnum fylgt svo til upp á topp. Undirlagið er sambland af skriðum og nokkuð þéttu undirlagi en í bleytu getur brekkan orðið hál. Þegar komið er upp á háöxlina þarf að finna bestu leiðina upp á klettatoppinn og hana má til dæmis finna norðan megin. Örlítið klöngur er á toppinn en flestum fært.
Útsýnið svíkur engan, vel sést niður í Húsavík og aðeins yfir til Loðmundarfjarðar eða til „Lommans“ eins og margir nefna þennan fallega fjörð. Dyrfjöll blasa við og fleiri fjöll gleðja augað.