Afskaplega fallegt fjall, svolítið sérkennilegt í laginu en þægilegt að ganga á þótt bratt sé. Gott útsýni. Ekið er út af vegi F261 eins og við séum að stefna í Emstrur, skála Ferðafélags Íslands á þeim stað. Eftir næstum slétta fimm hundruð metra stöðvum við bílinn. Uppgönguleiðin blasir við, nokkuð greinilegur hryggur sem liggur upp á topp.
Hattfell eða Hattafell er 909 metrar á hæð. Misjafnt er hvort nafnið er notað og ekki eru allir sammála um slíkt. Það er þó líklega tilkomið vegna þess að úr fjarlægð lítur út eins og það sé hattur efst á fjallinu. Hattfell er ekki ólíkt nokkrum öðrum fjöllum hér í nágrenninu. Þau standa stök, eru brött og jafnvel óárennileg að sjá. Má þar nefna Stórusúlu og Stórkonufell.
Vestan við fjallið er Hattfellsgil sem varð til í miklu hamfarahlaupi frá Mýrdalsjökli. Þar er að auki reimt og margir reynt það. Í gilinu er skáli í einkaeign. Annar skáli og mun þekktari er rétt sunnan við Hattfell og er það Emstruskáli en þar gista margir ef ekki flestir Laugavegsfarar.
Gönguleið okkar er hvorki stikuð né er þar stígur enda ekki fjölfarin leið. Hún er þó vel greinileg ef við höldum okkur við hrygginn. Efst í fjallinu þurfum við að færa okkur til vinstri fyrir smá skarð og þaðan beint upp. Undirlagið er gott, grasi gróið því sem næst upp á topp.
Útsýnið þegar upp er komið svíkur engan. Tindfjallajökull, Mýrdalsjökull, Eyjafjallajökull. Stórasúla, Stórkonufell og Tuddi og Tvíbaka. Dásamlegt landslag blasir við hvert sem horft er. Við göngum svo sömu leið niður til baka.