Stórkostlegt útsýnisfjall þegar vel viðrar. Líklega má sjá á annan tug jökla frá tindinum. Bláhnjúkur rís um 945 metra yfir sjávarmál og er nokkuð bratt að sjá. Ganga á það er þó nokkuð auðveld. Skýr og góður stígur er meira og minna alla leið á toppinn. Þar geta göngumenn blásið mæðinni og dundað sér við að skoða útsýnið með aðstoð útsýnisskífu sem þar er.
Gengið er frá skála FÍ í Landmannalaugum í átt að hesthúsinu (bragganum). Þar er farið yfir læk og haldið því sem næst beint á brattann. Á leið til baka má fara sömu leið eða niður hrygg til norðvesturs. Þá er komið ofan í Grænagil og það gengið tilbaka í skála Ferðafélagsins
Líklega eitt vinsælasta göngufjall á hálendinu. Á góðum sumardögum er varla stætt á fjallinu fyrir mannmergð. Talið er að fjallið hafi myndast fyrir um 50.000 – 90.000 árum en það er úr súru gjóskubergi. Sáralítill sem enginn gróður er á fjallinu og það þvi frekar grátt og kuldalegt að sjá. Það hefur þó verið sjónarspil þegar það myndaðist því talið er að um 400 metra þykkur ísaldarjökulll hafi legið yfir því þá. Litlu munaði að Bláhnjúkur yrði stapi því undir lok gossins rann hraun í ísgöngum efst við eldstöðina.
Þegar komið er á topp fjallsins blasir svo sannarlega við eftirminnileg sjón. Nærlendi fjallsins og hálendið í allri sinni dýrð. Það þyrfti sérstakan vef til að lýsa öllum þeim örnefnum sem þarna blasa við. Rétt er þó að minnast á að talið er að sjáist til ansi margra jökla. Þeir sem ættu að sjást eru: Vatnajökull, Öræfajökull, Hofsjökull, Langjökull, Tindfjallajökull, Mýrdalsjökull, Eyjafjallajökull, Torfajökull og Tungnafellsjökull. Ljóst er að endurnýja þarf þennan texta næst þegar gengið verður á fjallið því einhverjir eru að gleymast.
Eftir að göngumenn hafa horft nægju sína má ganga niður aftur. Mæla má með því að fara þá niður hrygginn sem liggur til norðvesturs ofan í Grænagil. Farið er niður gilið og komið að upphafsstað stuttu síðar.