Valmynd leiðarkerfis
Eiríksfell í Skorradal

Eiríksfell í Skorradal

Eiríksfell í Skorradal

Vesturland

Nokkuð þægileg en um leið mjög fjölbreytt gönguleið sem endar á allgóðu útsýnisfjalli.

Aka þarf inn Skorradalinn sé maður ekki þar staddur nú þegar því þessa gönguleið hefjum við á móts við bæinn Sarp sem er því sem næst eins innarlega í dalnum og hægt er að komast án þess að grípa til fjórhjóladrifs. Við byrjum á því að ganga niður að ánni að litlum fossi er ber nafnið Keilufoss en var áður nefndur Sarpur.

Sagan á bak við þessar nafngiftir er allskemmtileg en þau álög hvíldu á fossinum að þar mætti aldrei veiða meiri silung en þyrfti í eina máltíð. Að lokum braut einhver þá reglu, veiddi keilu og eftir það veiddist ekki meir á þessum stað. Fylgir sögunni sú kenning að þá hafi hann tekið nafnið Keilufoss en áður verið nefndur Sarpur.

Frá fossinum göngum við áfram eftir jeppaslóðanum  og sjáum fljótt til eyðibýlis sem ber nafnið Efstibær en þaðan kemur ein af þekktari ættum Borgarfjarðar. Meðal þeirra sem úr þeirri ætt koma er höfundur árbókar FÍ árið 2004 um Borgarfjörð, Freysteinn Sigurðsson en hann lýsti einhvern tíma ætt sinni þannig að margir séu afskaplega vel gefnir, sumir hagmæltir en flestir mjög sjálfstæðir í skoðunum og sérvitrir með afbrigðum.

Fyrir sérviskunni megi þó alltaf færa gild rök. En beint fyrir neðan bæinn má sjá annan foss er heitir Eiríksfoss, nefndan eftir vinnumanni frá Efstabæ sem drukknaði við fossinn. Sá ætlaði reyndar að drekkja hundi einum en tókst ekki betur til en að þeir drukknuðu báðir.

Leið liggur áfram eftir veginum sem er reyndar línuvegur, afskaplega illfær jeppum á köflum en ágætlega fær göngumönnum. Eftir ekki langa göngu komum við að Eiríksvatni sem löngum hefur verið þekkt fyrir góða silungsveiði en við höldum áfram og beint á Eiríksfell, 373 metra hátt. Þægilegast er að ganga á fellið frá veginum og þegar upp er komið launar það okkur erfiðið með góðu útsýni. Við blasir Skorradalur 28 kílómetra langur, Faxaflói sést einnig og ef við snúum okkur við má sjá til jökla.

Við stefnum beint að vatninu á niðurleiðinni og göngum meðfram því og niður með Fitjaánni að afar fallegum slæðufossi er heitir Hvítserkur. Frá honum er gengið niður með ánni aftur að upphafsstað.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

    Skildu eftir svar

    Listings

    Eiríksfell í Skorradal

    0