Valmynd leiðarkerfis
Tungufoss

Tungufoss

Tungufoss

Höfuðborgarsvæðið

Stutt ganga eftir góðum stíg að fallegum fossi. Við hefjum gönguna við sundlaugina í Mosfellsbæ. Stefnum því sem næst beint til norðurs, förum yfir Varmá á göngubrú og höldum að Leirvogshverfinu. Yfir Köldukvísl er önnur brú og þar rétt fyrir ofan er fossinn. Gengin er sama leið til baka.

Þetta er ljúf leið og hentar vel sem kvöldganga eða sem ganga með börnin á heitum sumardegi. Þá er upplagt að taka með sér léttari föt og leyfa þeim að busla í Köldukvíslinni neðan fossins.

Við göngum á malbikuðum stíg að seinni göngubrúnni sem er yfir Köldukvísl. Um leið og við komum yfir hana beygjum við til hægri og göngum meðfram árbakkanum. Smá príl upp á kletta til að sjá fossinn vel. Ekki vitlaust svo að tölta beint upp brekkuna að fræðsluskilti um fossinn og svæðið.

Eitthvað hefur verið af laxi og urriða í ánni en ekkert þó ofan við fossinn. Líklega kemst hann ekki upp hann. Sagt er að einhvern tíma í fyrndinni hafi tvær gamlar, skapillar konur búið þarna. Önnur við Laxnes en hin í Leirvogstungu. Deildu þær um veiðiréttinn í ánni og endaði það með því að sú kraftmeiri, þessi úr Leirvogstungunni hafði betur. Lagði hún þau álög á að aldrei skyldi veiðast fiskur í Mosfellsdal. Er það því líklega skýringin á því að lax fer ekki ofar í ánna.

Hylurinn beint fyrir neðan fossinn heitir Kerið og aðeins neðar er annar er nefnist Klapparhylur. Við fossinn má sjá leifar af rafstöð sem byggð var árið 1930 og var það bóndinn í Leirvogstungu. Var hún nýtt fram til ársins 1958.

Kaldakvísl á upptök sín í Grímmannsfelli og rennur meðal annars fram hjá Gljúfrasteini og gekk Halldór Laxness oft meðfram henni á göngutúrum sínum.

Við hinsvegar töltum sömu leið til baka.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Strætisvagn

Skildu eftir svar

Listings

Tungufoss

0