Þó ekki væri það nema fyrir að geta sagst hafa gengið á fjall með þessu sérkennilega nafni. En útsýnið yfir Mývatnssvæðið er líka eitt og sér þess virði að ganga á Vindbelgjarfjall eða Belgjarfjall eins og sumir Mývetningar nefna það.
Við leggjum bílnum rétt vestan við bæinn Vagnbrekku. Þaðan er um hálftíma gangur rösklega að fjallinu. Leiðin er ekki stikuð nema að hluta en eigi að síður nokkuð augljós. Þegar að fjallinu er komið förum við aðeins vinstra megin í fjallið, þar er greinilegur stígur upp á fjallið. Hann er að einhverju leyti stikaður. Sama leið er gengin til baka.
Vindbelgjarfjall (529 m.y.s.) er móbergshnjúkur sem varð til við gos undir jökli. Þegar jökullinn hopaði fyrir um 10.000 árum blasti þessi fallegi stapi við. Þrátt fyrir að Vindbelgjarfjall rísi ekki nema rúma 200 metra yfir umhverfi sitt er þaðan einstakt útsýni yfir Mývatnssvæðið. Líklega það besta sem finnst.