Valmynd leiðarkerfis
Víknaslóðir

Víknaslóðir

Víknaslóðir

Austurland
  • Erfiðleikastig: 2
  • Vað: Brýr á stærri ám
  • Næsta þéttbýli: Borgarfjörður eystri
  • Hækkun: Um 600m.
  • Flokkur:

Víknaslóðir eru göngusvæði sem engan svíkur. Þar blandast saman fallegir firðir og víkur, líparítfjöll og glæsileg fjallasýn hvert sem litið er. Gangan hefst á Borgarfirði Eystri. Yfirleitt er hún gengin á þremur dögum en einnig er hægt að bæta við degi og ganga alla leið til Seyðisfjarðar. Hægt er að gista í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Beiðuvík og Húsavík. Einnig hefur verið gisting í boði í Loðmundarfirði. Mikill kostur við þessa gönguleið er að mannfjöldi er hæfilegur. Hægt er að njóta náttúru og göngu án sífelldra truflana.

Dagur 1.  Borgarfjörður eystri – Brúnavík – Breiðavík. 5 – 7 klst. – 15 km.
Ganga okkar hefst í austanverðum Borgarfirði, rétt við bæinn Hofströnd. Víknaslóðir eru stikuð gönguleið og víðast hvar eru stígar ágætir og nokkuð greinilegir. Þennan fyrsta dag er gengið yfir Brúnavíkurskarð (400 m.y.s) og ofan í Brúnavík. Í víkinni er neyðarskýli Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þarna var lengi tvíbýlt en síðustu ábúendur yfirgáfu víkina árið 1944. Þarna voru góð skilyrði til búskapar, góð tún, fjörubeit og góð lending.

Frá Brúnavík er gengið um Súluskarð og Kjólsvíkurvarp til Breiðuvíkur. Eitt býli var í Kjólsvík en það fór í eyði á fjórða áratug síðasta aldar. Það stóð undir snarbröttum hlíðum Glettings en ofan bæjarins er klettur með nafninu Kjóll. Dregur víkin nafnið sitt af honum. Það er þó ekki svo að íbúar hafi verið einmuna tískusinnaðir heldur merkti orðið kjóll skip eða kjölur.  Sprettharðir göngumenn sem vilja bæta við sig geta gengið úr Súluskarði út á Glettinganes um Hvalvík. Leiðin er ekki löng en mjög torfær, skriður og bratti. Ekki er því ráðlagt að fara þar nema vanir göngumenn séu á ferð.

Á Glettinganesi var afskekktasti bær svæðisins. Viti er á svæðinu enda ekki vanþörf á því mikið brim er á svæðinu. Það hindraði ekki bændur áður fyrr því róður var stundaður héðan enda stutt á fengsæl mið. Brekkan niður á nesið er svo brött að þar þurfti oft reipi til að komast niður hana.

Dagurinn endar í góðum skála í Breiðuvík.

Dagur 2. Breiðavík – Húsavík. 4 – 6 klst. – 14 km.
Landnáma segir frá Breiðuvík en þar nam Þórir Lína land. Hér var oft tvíbýlt en Litluvík var sunnan árinnar en Breiðavík norðan hennar. Þetta þóttu góðar bújarðir enda mikið undirlendi í víkinni. Þótti þó mikill galli hversu lendingin var slæm. Fjaran er hálfgert ævintýraland og það er vel þess virði að taka kvöldgöngu um hana og víkina sjálfa. Fjallasýn er góð enda fjölbreytt fjallaflóra sem umlykur víkina.

Gengið er til vesturs úr víkinni, farið yfir Stóruá á góðri göngubrú. Þegar slóðinn beygir í suðurátt blasir við dalverpi sem er sannkölluð náttúruparadís. Umkringt Hvítuhnjúkum, Hvítafjalli og Hvítserk, líparítblönduðum fjöllum er þetta litla dalverpi þess virði að ganga mjög rólega í gegn um. Gæsavötn blasa við og litlu lengra til vesturs er Urðarhólavatn. Stórkostlegur staður.

Við göngum svo af slóðanum upp á veginn sem leiðir okkur til Húsavíkur. Hvítserkur er okkur á vinstri hönd og ber nafn með rentu enda prýtt margt póstkortið svo sérstakur er hann. Breiðavíkurmegin er hann lítt merkilegur en um leið og komið er hinu megin blasir annað við. Ljóst líparít einkennir fjallið en dökkir berggangar skerast þvers og kruss í gegn um fjallið. Afskaplega sérkennileg náttúrusmíð.

Skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs blasir svo við þegar Húsavík nálgast, ekki síðri en sá sem við gistum í nóttina áður.

Dagur 3. Húsavík – Loðmundarfjörður. 4 – 5 klst. 12 km.
Áður en við leggjum í hann skulum við svipast um í Húsavík sem er stærsta víkin á Víknaslóðum. Landnáma segir að Þorsteinn kleggi hafi numið þar land og frá honum séu Húsvíkingar komnir. Kirkja er í víkinni sem var reist 1937, kaldhæðnislega rétt áður en flestir bæir fóru í eyði. Í Húsavík var lengi fjórbýlt enda var þar gott að búa, mikið útræði og fjörubeit. Norðan Húsavíkur er all sérkennileg náttúrusmíð, Blábjörg, magnað stuðlaberg sem því miður sést einungis frá sjó.

Gengið er yfir í Loðmundarfjörð á og meðfram veginum. Litlar líkur eru því á villum á þeirri leið. Þegar við göngum yfir Neshálsinn í átt að Loðmundarfirði eða Lommanum eins og hann er stundum nefndur er gott að taka sér útsýnispásu. Frá hálsinum sést vel yfir Loðmundarfjörð og áfram yfir á Dalatanga sé skyggni gott. Vinstra megin við okkur er Dagmálafjall og neðan við það eru Ytri og Innri Álftavíkur. Sögusagnir herma að áður hafi verið byggð í innri víkinni en vitað er að sú Ytri var í byggð fram yfir áramótin 1900. Álftavíkurtindur sem liggur rétt norðaustan við Dagmálafjall hefur að geyma sérstök og falleg jarðlög.

Við göngum svo inn Loðmundarfjörð að Stakkahlíð þar sem ferðaþjónustubóndi staðarins ætlar að hýsa okkur.

Dagur 4. Loðmundarfjörður – Seyðisfjörður. 6 – 8 klst. 14 km.
Þessi síðasta dagleið telst ekki til eiginlegra Víknaslóða en er stundum bætt við – aðrir láta sér þrjá daga duga. En lítum í kring um okkur í Lommanum. Byggð hér var blómleg lengi vel. Íbúar voru til dæmis 87 um aldamótin 1900 á um 10 bújörðum. Um miðja síðustu öld fóru fimm jarðir í eyði og svo ein af annari. Sú síðasta, Sævarendi hélst í byggð til ársins 1973. Kirkjustaður hefur verið lengi í Loðmundarfirði, Klyppsstaður og var núverandi kirkja reist árið 1891. Hún var gerð upp að hluta a.m.k. fyrir nokkrum árum.

En okkur er ekki til setunnar boðað. Fyrir dyrum stendur ganga upp á Hjálmárdalsheiði sem liggur í um 600 metra hæð. Við göngum út fjörðinn sunnan megin í átt að gömlu bæjarstæði, Hjálmárströnd. Áður en við komum að því leggjum við á brattann. Leiðin sem við göngum er forn leið á milli þessara tveggja fjarða og nokkuð greið. Þó getur snjór legið hér fram eftir sumri. Þegar við komum fram á brúnir Seyðisfjarðar þurfum við að fara um Kækjuskörð til að lækka okkur niður nokkuð brattar hlíðarnar. Það á þó ekki að reynast neinum ofraun en rétt er að fara varlega. Við komum svo niður á veg í Seyðisfirði stuttu síðar.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

    Skildu eftir svar

    Listings

    Víknaslóðir

    0