Stórkostlegt útsýni af þessu fjalli. Gangan ekki löng en alpalandslag Austfjarða blasir við þeim sem hana þreyta. Við ökum frá Eskifirði áleiðis á skíðasvæðið í Oddsskarði. Um 300 – 400 metrum áður en við komum af því sjáum við gamla veginn yfir Oddsskarð okkur á vinstri hönd og við hann er gönguleiðamerki. Við beygjum útaf og eltum slóðann þar til svona hundrað metrar eru eftir færir af honum.
Þar sjáum við stikur upp brattann til vinstri. Leggjum bílnum og leggjum land undir fót. Leiðin er brött og laus í sér en þó ekki slæm. Gengið er því sem næst beint upp brekkurnar en hækkun er ekki mikil. Þegar upp er komið færum við okkur til austurs og á hæsta tind fjallsins og njótum fallegs útsýnis til flestra átta.
Svartafjall rís í um 1.021 metra hæð yfir sjávarmáli og liggur miðsvæðis í sveitarfélaginu Fjarðarbyggð. Nafnið skýrir sig líklega sjálft en bergið er afar dökkt og fjallið í raun óárennilegt. En þar sem við ökum upp í rúmlega sex hundruð metra hæð er gangan nokkuð þægileg.
Útsýnið er bæði gríðarlega mikið og ekki síður fallegt enda með eitt af hærri fjöllum Austfjarða. Hið hæsta er Kistufell 1.239 metrar og liggur það í utanverðum Þrándarjökli.
Eftir að hafa notið útsýnis yfir austfirsku alpana höldum við sömu leið til baka.