Valmynd leiðarkerfis
Suðurnámur

Suðurnámur

Suðurnámur

Hálendið
  • Erfiðleikastig: 2
  • Vað: Eitt vað, lítið
  • Næsta þéttbýli: Hella
  • Hækkun: Um 280m.
  • Samgöngur: Áætlun í Laugar
  • Flokkur: ,

Það er erfitt að lýsa göngu um svæðið í kring um Landmannalaugar. Það eru hreinlega ekki til orð sem eru nógu sterk. Litapalletta skaparans hefur verið með stærra móti þegar hann skapaði þetta svæði. Ganga á Suðurnámur (920 m.y.s.) er upplifun sem aldrei gleymist slík er litadýrðin, fjölbreytileikinn og fegurðin. Að reyna að lýsa henni hér verður aldrei nema hjóm af raunveruleikanum. Oft er gengið á Suðurnámur frá veginum þar sem hann liggur hæst ofan Frostastaðavatns. Hér er valin hringleið þar sem gangan hefst og endar við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum. Þetta er góður hálfur dagur á göngu sem hentar þó öllum.

Gangan hefst við skála FÍ og gengið er í gegn um Laugahraun og Laugaveginum fylgt. Rétt áður en göngumenn hækka sig í átt að Brennisteinsöldu má sjá skilti sem bendir til hægri á Vondugil og Hágöngu. Þeirri slóð er fylgt og göngum við nú yfir Vondugiljaaura. Á leiðinni er lítil á sem þarf að þvera en það er lítið mál oftast nær. Þegar komið er inn í enda er greinilegur hryggur sem blasir við og er honum fylgt beint upp, nefnist hann Uppgönguhryggur. Ofan við hann eru gatnamót, til vinstri er haldið að Háöldu en til hægri upp á Suðurnámurnar og eftir það er stígurinn nokkuð greinilegur. Áður en gengið er upp hrygginn má þó ekki gleyma að njóta gilja og litríkra hlíða staðarins.

Talið er að Suðurnámur hafi myndast fyrir um 200.000 árum síðan. Fjallið eða fjallgarðurinn er ríkur af líparíti eins og flest fjöll á svæðinu. Þar má því endalaust gleyma sér við að horfa á þetta undur náttúrunnar. Frá toppnum er ljómandi gott útsýni. Til austurs má sjá Kirkjufellið glæsilegt og aðeins til hliðar blasir Veiðivatnasvæðið við. Næst okkur blasir Laugahraun, Landamannalaugar og Brennisteinsalda við og auðvitað Bláhnúkur.

Því sem næst beint í vestur blasir Hekla við og litlu nær Rauðufossafjöll og Mógilshöfðar. Eitt er víst að í góðu skyggni mun göngumann ekki skorta fallegt og fjölbreytt útsýni.

Gönguleið okkar liggur út eftir Suðurnámum og er stígurinn nokkuð augljós víðast hvar. Þegar við færum okkur niður á við liggur leiðin aðeins til norðurs, frá Landmannalaugum en þar komum við niður á akveginn sem við fylgjum svo til baka inn að skála FÍ.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Áætlun í Laugar

Skildu eftir svar

Listings

Suðurnámur

0