Sannkölluð ævintýraferð sem reynir þó örlítið á fótafimi göngufólks. Stikla þarf á steinum eða vaða lítla á alloft á leið sinni inn í þetta fallega gil. Ekið er aðeins inn fyrir Seljalandsfoss og þar beygt upp að gilinu. Gangan er ekki löng en „klifra“ þarf örlítið á síðustu metrunum til að sjá fossinn í enda gilsins. Eðlilega er svo sama leið gengin til baka.
Nauthús var eitt sinn hjáleiga frá Stóru Mörk sem er næsti bær. Mögulega voru við gilið nautgripahús og hjáleigan svo síðar reist á sama stað. Ekki er vitað neitt um það hvenær búið var á Nauthúsum. Sagan segir þó að þar hafi búið tveir bræður, hálf leiðinlegir og drykkfeldnir mjög. Systir þeirra var gift bóndanum á Stóra-Dal og eitt sinn hafi þeir ætlað þangað. Erindið var að sækja bóndann og drekkja honum í Markarfljóti. Ekki tókst betur til en svo að þeir drukknuðu sjálfir. Gengu þeir aftur og varð víst engum vært að Nauthúsum eftir það. Margir finna enn fyrir návist þessara bræðra við gilið.
Hægt er að aka langleiðina að Nauthúsagili. Þar má finna stæði fyrir nokkra bíla. Hægt er stikla á steinum yfir ánna þegar gengið er inn gilið en betra er þá að vera á góðum hálfstígum gönguskóm. Líklegra er að mjúkir minna vatnsheldir skór blotni. Einnig má auðvitað bara vera á vaðskóm eða strigaskóm og láta sig litlu varða þó maður blotni aðeins.
Leiðin skýrir sig alveg sjálf. Best er að fara yfir brúnna sem þarna yfir og svo bara elta „slóðina“. Hægt er að fara þarna með börn en betra er að leiða þau og fara þarf varlega. Við leiðarlok þarf að „klifra“ smáspöl en þar er kaðall og góðar höldur og er því flestum auðvelt sé varlega farið. Innst í gilinu er fallegur foss en sjarmi þessarar leiðar felst fyrst og fremst í ævintýramennskunni við að klöngrast inn gilið.
Ekki má gleyma því að horfa til himins þegar gengið er inn gilið. Þar má sjá mikið af trjágróðri, mest birki en þó eitthvað um reynitré einnig.
Sagan segir að að fremst í nyrðri gilbarminum hafi eitt sinn verið eitt mesta reynitrá landinu. Var á því helgi og mátti ekki skemma það. Stutt frá trénu var fjárból og töldu menn að þar fengi það næringu og dafnaði svo vel vegna þess. Á fjórða áratug síðustu aldar klofnaði einn stofn þess. Við aldursgreiningu á honum var talið að tréð væri a.m.k. 90 ára gamalt. Það er nú löngu horfið og ný tré risin úr rótum þess.