Fæstir hafa ef til vill hugsað sér Laugarnesið í Reykjavík sem göngusvæði. Staðreyndin er hinsvegar sú að þarna er bæði ljómandi skemmtilegt að ganga en ekki síður fjölbreytt. Upplagt er að leggja bílnum við listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Þar eru fín bílastæði. Leiðin liggur svo til að byrja með aðeins tilbaka að húsi Hrafns Gunnlaugssonar en svo eftir bakkanum meðfram sjónum að Skarfabakka. Þar má á oft á sumrin sjá stór og glæsileg skemmtiferðaskip liggja.
Að „stelast“ til að kíkja á garð og hús Hrafns Gunnlaugssonar leikstjóra verður vonandi fyrirgefið. Í sjálfu sér umhverfið hálfgert nýlistasafn svo haglega hefur hann safnað að sér skrýtnum og skemmtilegum hlutum. Þaðan göngum við aftur að Sigurjónssafni þar sem myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson bjó og iðkaði list sína. Hér var áður braggahverfi og nýtti Sigurjón einn braggann fyrir vinnustofu. Síðar var íbúðarhúsinu bætt við. Ekkja Sigurjóns, Birgitta Spur rekur nú safnið.
Litlu lengra má finna Norðurkotsvör sem er skemmtileg fjara. Við hana stóð fjöldi Reykvíkinga árið 1906 og horfði á mikinn harmleik. Þilskipið Ingvar strandaði á skeri við Viðey í aprílmánuði og týndust hver bátsverjinn á fætur öðru af skipinu án þess að hægt væri að koma björg að. Alls drukknuðu tuttugu manns þennan dag. Þegar gengið er áfram er fljótt komið að Skarfakletti. Ekki er langt síðan hann var töluvert frá landi en Faxaflóahafnir hafa unnið að uppfyllingu og því liggur hann við land nú.
Viðeyjarferjan hefur aðstöðu við Skarfabakka en þangað er reglulegar ferðir. Einnig liggja skemmtiferðaskip við Skarfabakkann en það er afgirt og ekki heimiluð för þar um. Það getur þó verið gaman að standa við Skarfaklett og fylgjast með þessum gríðarstóru skipum koma eða fara.
Við snúum hinsvegar við og höldum aftur tilbaka að þeim stað er við lögðum bílnum.