Flestir er heimsækja Látrabjarg gera það raunverulega ekki, eða hvað? Að minnsta kosti vestasta odda þess og um leið vestasta odda Íslands og reyndar Evrópu. Leiðin okkar liggur meðfram Látrabjargi um sex kílómetra leið upp á hæsta hluta bjargsins, Hvanngjáarfjall. Gengin er svo sama leið tilbaka.
Benda skal á að þessi leið er ekki merkt né stikuð en eigi að síður þægileg til göngu og auðrötuð. Berginu er fylgt þar til komið er á hæsta punktinn Hvanngjáarfjall. Varast skal að fara of nærri brúnum, þar getur undirlag verið laust og jafnvel holt eftir varp lunda.
Haldið því öruggri fjarlægð frá bjarginu. Ef engin leið er að ráða við þá löngun að horfa niður skal leggjast á magann og skríða fram á brún. Best er þó bara að horfa úr öruggri fjarlægð og er það aldrei nógu oft ítrekað.
Látrabjarg er stærsta fuglabjarg landsins um 14 km. á lengd og 441 metri á hæð þar sem það ríst hæst yfir sjó. Það hefur verið nytjað frá því land byggðist. Bjargið skiptist í fjóra hluta sem heita Látrabjarg, Keflavíkurbjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Ágætis gönguleið er til dæmis úr Keflavík fram á Látrabjarg, Bjargtangavita.
Allmörg skip og bátar hafa strandað við Látrabjarg en þekktasta strandið er líklega þegar togarinn Dhoon strandaði þar í miklu óveðri þann 12. desember 1947. Unnu bændur þar eitt mesta björgunarafrek íslandssögunnar þegar þeir unnu sleitulaust í nokkra daga að björguninni. Sigu þeir niður í bjargið og tókst að bjarga 12 manns en þrír drukknuðu. Óskar Gíslason gerði einhverjum misserum síðar heimildamynd um björgunina. Svo undarlega vildi til að þegar hann var við tökur á Látrabjargi strandaði þar annar togari, Sargon og náði Óskar myndum af því og notaði í myndina.
Þessi vestasti hluti bjargsins er að mestu leyti standberg, þverskurður af hraunlagastafla Vestfjarða sem varð til í fjölda gosa fyrir um 12 – 13 milljónum ára.
Talið er að milljónir sjófugla séu hverju sinni í bjarginu og verpa þar allar helstu tegundir s.s. Lundi, Fýll, Súla, Rita, Stuttnefja, Langvía, Teista, nokkrar mávategundir og Sjósvala svo eitthvað sé nefnt.