Ansi hreint skemmtileg gönguleið við allra hæfi á lítið fell sem þó opnar sig fyrir göngumönnum á skemmtilegan hátt. Við ökum sem leið liggur að Höskuldarvöllum og leggjum bílnum við Eldborg sem er í norðausturhorni vallanna. Þaðan liggur skýr gönguleið beint til norðurs að Lambafelli. Við göngum austan megin við fellið og upp gjá nyrst í því. Þaðan liggur leið yfir fellið og á stíginn og að bílnum aftur.
Lambafell er ekki stórt, virðist rétt rísa yfir jafnsléttuna, ekki nema nokkrir tugir á hæð. En þegar við höfum gengið sunnan við það blasir sérstaða þess við. Gjá, misgengi sem hefur brotið fellið í tvennt. Upp þessa gjá er hægt að ganga og er það alveg einstaklega sérkennileg en skemmtileg upplifun ekki síst yfir yngri kynslóðina. Þetta er Lambafellsgjá eða Lambafellsklofi en misjafnt er hvort nafnið er notað. Vel má sjá bólstra í gjánni og jafnvel uppi á fjallinu við gjánna.
Að ganga upp gjánna ætti flestum að vera fært en örlítill bratti er efst í henni. Þegar upp er komið blasir við ágætis útsýni. Margir vilja ganga niður gjánna aftur en allt eins gott er að fara yfir fellið til suðurs og niður á stíginn aftur.