Svipað og Skútustaðagígar má kalla þessa gönguleið hálfgerða ferðamannaleið. Hún er þó fyllilega þess virði því Hverfjall – Hverfell er einstakur gígur og fyllilega þess verður að sjá. Vegur liggur að fjallinu norðvestanverðu og þar hefjum við gönguna. Stígurinn er afar greinilegur, stikaður og merktur og fylgjum við honum á fjallið, göngum hringinn í kring um gíginn og niður aftur.
Hverfell eða Hverfjall…um þetta hefur lengi verið deilt og úr því verður ekki skorið hér. En við köllum þetta fjall, það er eittthvað meira við að ganga á fjall en fell.
Hverfjall er ansi stór sprengigígur, um 1.000 metrar í þvermál og 140 metra djúpur þar sem hann er dýpstur. Hann er talinn vera í röð stærstu og fallegustu sprengigíga á jörðinni og varð til fyrir um 2.800 árum.
Lengi vel var vinsælt að ganga ofan í gíginn og útbúa nafn sitt eða einhvert nafn úr grjóti á botninum. Tölta svo upp aftur og taka mynd af herlegheitunum. Þetta er sem betur fer ekki iðkað lengur. Frá toppi fjallsins er afar gott útsýni yfir Dimmuborgir.