Ef börn eru með í för og dvalið er í Þórsmörk þá er þetta gönguleiðin sem ætti að velja. Að ganga um Hamraskóg er ævintýri, öðruvísi en líka bara ævintýri. Leiðin er einföld, þetta er síðasti spotti Laugavegarins og því vel merkt sem slík. Litlu lengra úr Langadal en Húsadal.
Hamraskógur hafa verið í umsjón Skógræktarinnar í áratugi og hefur náðst þar góður árangur í skógrækt. Vegurinn sem við göngum eftir var áður ein leiðin inn í Þórsmörk. Leið okkar liggur alla leið að Þröngá en ekki þverum við hana að þessu sinni. Við göngum hinsvegar að henni og horfum yfir á gróðurminna svæði, Almenninga. Við lítum svo uppeftir eða austureftir og sjáum þar stórt gil, Tindfjallagil en í því er stór klettadrangur er kallast Tröllakirkja.
Við göngum svo sömu leið til baka og reynum að finna Systurnar sjö. Ekki er um að ræða nunnur sem þarna týndust heldur má sjá neðarlega í skóginum sjö birkihrislur í hnappi er bera þetta nafn. Í ársskýrslu Skógræktarfélags Íslands segir um Hamraskóg; „Er skógurinn dæmigerður birkiskógur, trén yfirleitt fremur kræklótt en sæmilega hávaxin miðað við að skógurinn liggur í um 250 metra hæð yfir sjávarmáli. Stök tré ná að minnsta kosti 10 metra hæð þó að algengasta yfirhæð sé nær fimm metrum.“