Gönguleið um vestasta hluta Seltjarnarnes er fín afþreying. Stutt er að fara og margt þar að sjá enda staðurinn vinsæll. Við hefjum gönguna á bílastæðinu við Gróttu. Ef sjávarföll leyfa er upplagt að skjótast út í Gróttu og skoða vitann. Eftir það höldum við meðfram stígnum í átt að svæði golfklúbbsins. Við göngum með Bakkatjörn á vinstri hönd og sjóinn á hægri.
Þegar við erum rétt komin að golfvellinum eltum við stíginn eftir Suðurströndinn í átt að byggðinni. Rétt eftir að við förum aftur framhjá Bakkatjörn grípum við stíg sem stefnir beint á Nesstofu. Frá henni förum við yfir á Norðurströnd og aftur að bílastæðinu við Gróttu.
Er við löbbum út í Gróttu blasir vitinn við. Hann var reistur árið 1947 en fyrsti vitinn í Gróttur var byggður árið 1897. Það var árið 1970 sem síðast var vitavörður í Gróttu. Sá hét Albert og drukknaði það ár við Gróttu. Eftir að hafa virt fyrir okkur fuglalífið í og við Gróttu höldum við tilbaka.
Við göngum meðfram Bakkatjörninni og á hægri hönd er Bakkavík. Hér áður fyrr rann oft sjór í tjörnina og þá var ekki gengt á milli. Seltjarnarnesbær hefur látið setja upp töluvert af fræðsluskiltum á svæðinu. Upplagt er að stöðva við þau og fræðast um þennan skemmtilega stað. Þegar golfvöllurinn nálgast færum við okkur „yfir“ nesið og göngum fram Bakkatjörn aftur og förum framhjá henni. Þar liggur stígur beint að Nesstofu sem við eltum.
Nesstofa var upphaflega aðsetur landlæknis og reist árið 1763. Nú er þar lyfja- og lækningaminjasafn. Vert er að benda á að héðan er ágætis útsýni yfir nesið en staðurinn stendur á smá hól í landslaginu. Við höldum áfram í beinni stefnu niður á norðurströnd nessins. Þaðan göngum við aftur tilbaka á bílastæðið. Tvennt vekur athygli á leiðinni. Annarsvegar uppgert býli, Ráðagerði. Þar voru gerðar veðurathuganir í fyrsta sinn hér landi fyrir danska vísindafélagið. Á leiðinni má einnig sjá gamlan þurrkhjall en þeir voru margir hér áður.
Umhverfisnefnd Seltjarnarnes gaf út göngukort fyrir nokkrum árum. Þar er þessi leið og fleiri til merktar inná. Mögulega má fá það ennþá á skrifstofum bæjarins.