Fyrir þá sem hafa gaman af því að bregða sér aftur í tímann er gönguleið um Beruvík vel til fundin. Ekinn er örstuttur slóði að bílastæði þar sem bílinn er skilinn eftir. Þaðan er um 10 mínútna ganga eftir gömlum akvegi að Beruvík. En þessi leið liggur lengra þvi við göngum einnig að Klofningsrétt sem er í um 15 mínútna fjarlægð. Sú leið er einnig stikuð og nokkuð skýr. Við göngum svo sömu leið til baka nema einhver hafi fórnað sér, sleppt göngunni og sæki okkur að Klofningsrétt.
Í Beruvík (N64°48.740′ og V23°58.308′) eða Bervík eins og heimamenn sumir nefna hana var töluverður búskapur áður fyrr. Töluvert var róið frá víkinni þrátt fyrir að lendingin sér afar erfið. Alls voru fjórir bæir í víkinni, Nýjabúð, Hella, Helludalur og Garðar. Umtalsverðar minjar eru eftir búsetuna, veggir af húsi, hlaðnir veggir og margt fleira sem ber vitni um töluverðan búskap. Eins og ansi víða á Snæfellsnesi fór Beruvík í eyði um miðja tuttugustu öld.
Í lok mars 2012 rak fullvaxinn búrhval að landi í Beruvík og flykktist fólk að til þess að skoða hræið. Á næstum dögum hafði kjálki hvalsins verið sagaður af, fyrst helmingur og svo seinni helmingurinn. Er ekki vitað hver var þar að verki en hægt er að fá töluverðan aur fyrir hvalatennur.
Eftir að hafa skoðað minjarnar í Beruvík höldum við inn í hraunið og stefnum á Klofningsrétt. Þessi leið nefnist Stutthalastígur og nú má hver velta fyrir sér hvaðan sú nafngift kemur. Þetta er skemmtileg leið og hentar öllum.
Við getum svo snúið við og gengið sömu leið til baka nema einhvar hafi fórnað sér og sé komin með bílinn að réttinni.