Gangan hefst hjá íþróttahúsinu við Hallormsstaðaskóla. Fyrri hluti leiðarinnar er dálítið á fótinn. Haldið er sem leiðin liggur upp á Neðri-Kistukletta, sveigt inn fyrir Kistu og upp á Efri-Kistukletta, að Lambafossi 21 metra háum fossi er fellur niður klettavegginn í 24. metra djúpt Staðarárgilið.
Lengja má gönguna upp með Staðará að gamalli stíflu í ánni þaðan sem vatn var leitt í 27 Kw rafmagnsvirkjun er stóð undir Neðri-Kistuklettum og sá Hússtjórnarskóla og Hallormsstaðabæ fyrir rafmagni árin 1936-1955. Til baka frá Lambafossi er farið niður meðfram Staðarárgili en gætið varúðar á gilbarminum.
Farið er um Efri-Kistukletta niður á Neðri-Kistukletta og komið niður að íþróttahúsi.
Leiðin býður upp á fagurt útsýni yfir Hallormsstað, Lagarfljót og til Fljótsdals. Fjallshlíðin innan við Staðará heitir Hádegisfjall.
Remba er nafn á gamalli gönguleið upp Hádegisfjall. Um Rembu og áfram yfir Hallormsstaðaháls að Mýrum í Skriðdal var oft farið áður fyrr.
Fylgið stikum með hvítum lit.
Ofangreind heimild: Hallormsstaðaskógur, göngukort
Útgefandi: Skógrækt ríkisins
Vefsíða: www.skogur.is