Stutt gönguleið sem leiðir okkur frá bílastæðinu á Hringsbjargi að betri útsýnistað ofar. Við leggjum á Hringsbjargi en þar stöðva flestir ferðamenn sem þarna eiga leið um. Förum yfir veginn og eltum mjög greinilegan stíg upp á hæðina fyrir ofan. Sama leið til baka.
Hringsbjarg er vinsæll áfangastaður ferðamanna á leið um Tjörnes og Öxarfjörð enda hefur verið útbúinn þarna fallegur staður. Góð skilti eru á staðnum en ekki síður gott útsýni. Við ætlum þó að sækja okkur aðeins betra útsýni og ganga upp á litla hæð að Imbuþúfu. Förum samt varlega yfir veginn, þarna er oft ekið greitt.
Imbuþúfa er nefnd eftir draugi einum sem þarna sveimar um og hefur gert lengi. Ekki eru nema nokkur ár síðan að vegagerðarmenn voru að upplifa ýmsar vélarbilanir við vinnu sína í Hafnarbrekku ofan við Fjallahöfn. Eins og oft voru álfar nefndir sem orsök bilana en einhverjir vildu meina að þarna væri Imba á ferð. Baldur Einarsson hafði ákveðnar efasemdir um það, taldi að bifvélaþekking drauga væri óljós. Hann setti saman vísu af því tilefni:
Vélarbilanir valda þraut
og vont er að sjá fyrir vandann
Því iðnmenntun sína Imba hlaut
alla fyrir handan.