Ansi hreint skemmtileg gönguleið á næstnyrsta anga landsins. Bílastæði er við Hraunhafnarvatn. Bílslóði liggur út á tangann en það er bæði fljótlegra og skemmtilegra að ganga. Leiðin er auðrötuð, við eltum vegslóðann út að vita og til baka.
Hraunhafnarviti er aðeins 3 km. sunnan við heimskautsbaug en hann stóð áður á Rifstanga sem er nyrsti tangi landsins. Leiðin er fjölbreytt og skemmtileg, við sjáum fjörur og allt það sem sjórinn hefur þangað kastað en um leið upplifum við fuglalíf, bæði sjó- og mófugla.
Í dag finnst manni sérstakt að hugsa til þess að Hraunhöfn var áður þekkt höfn og kemur oft við sögu á söguöld. Hennar er meðal annars getið í Gunnlaugs sögu, Reykdælinga sögu og Íslendingabók. Fóstbræðra saga segir svo frá því þegar Þorgeir Hávarsson var veginn eftir að hafa banað einum fjórtán. Steinhrúga á staðnum er sögð vera dys hans en það skal hér viðurkennast að sá er þetta ritar hefur ekki fundið nógu trúverðuga hrúgu, afsakið dys á staðnum. Endilega leitið.
Aðeins austar en Hraunhafnarvatn liggur má finna lítinn hóla sunnan (hægra megin) við veg. Sá heitir Meyjarhóll og er skemmtileg þjóðsaga honum tengd. Á ónefndum tíma herjaði mikil plága á íbúa Melrakkasléttu og féllu allir nema tveir. Ein kona á Austur Sléttu og einn maður á Vestur Sléttu. Þau lögðu land undir fót til að finna hvort annað og gerðu það á Meyjarhól. Eftir hitting þeirra var ljóst að ný kynslóð yrði til og Sléttubúar mundu lifa áfram.
Og fyrir þá göngugarpa sem áhuga hafa á vitum þá er Hraunhafnartangsviti reistur 1951, hann er 19 metrar á hæð, ferkantaður með rauðu húsi fyrir vitaljósið. Ljósið blikkar til skiptis löngu og stuttu ljósi/blikki á 30 sekúndna fresti. Litur ljóssins fer eftir afstöðu frá vitanum en annaðhvort rautt eða hvítt.