Ekinn er Fljótshlíðarvegur (261). Beygt er upp hjá Breiðabólsstað í Fljótshlíð, um 5 km. frá Hvolsvelli. Best er að leggja bílnum við safnaðarheimilið og fylgja girðingu í vesturátt að gilinu. Um er að ræða göngleið sem er að mestu eftir kindagötum. Það er mjög skemmtilegt að ganga upp Flókastaðagil frá Breiðabólstað. Þetta er ekki erfiður gangur en ævintýraleg ferð að fara í með börn.
Í gilinu er mikið fýlavarp. Efst í gilinu er uppistöðulón og rafstöð hér áður fyrr og var þá vinsælt að fara þangað á sumrin til að synda í lóninu. Þegar upp er komið er yfirleitt gengið beint í suður fram á brún fyrir ofan Staðinn. Þar eru bæjarrústir sem heita Hákot og sést þar vel yfir Staðarhverfið, Eyjahverfið og til Vestmannaeyja.
Rétt er að hafa samband við landeigendur og fá leyfi.
Ofangreind heimild: Gönguleiðir í Rangárþingi eystra
Útgefandi: Katla jarðvangur
Vefsíða: www.katlageopark.is
Rétt er að benda á að við gilbarma getur verið hált og ætti því aldrei að fara of nálægt. Einnig að leiða yngri börn.