Líklega ein vinsælasta gönguleið landsins. Enda er hún fjölbreytt, auðveld og sýnir okkur undur Landmannalaugasvæðisins ansi vel.
Hún hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum. Gengið er beint í átt að hesthúsinu (bragganum) og þaðan eftir slóðinni meðfram hrauninu. Þegar komið er að ánni, læknum er beygt inn í Grænagil eftir nokkuð skýrum slóða.
Leiðin hentar líklega ekki alveg þeim yngstu en öðrum ætti hún að vera greiðfær. Slóðanum er fylgt vel inn eftir gilinu en rétt áður en að grasbölum er komið beygir hún inn í hraunið. Í hrauninu getur verið örlítið villugjarnt og því gott að stefna beint á Brennisteinsöldu og halda sig við þá slóða sem það gera. Þegar komið er þangað eltum við svo slóða tilbaka (hægri) að skálum FÍ aftur. Er það sama leið og þeir fara sem ganga Laugaveginn.
Þegar gengið er inn í Grænagil gnæfir yfir okkur Bláhnjúkur. Neðst í brekkum hans má sjá grænlitaða flekki og dregur gilið nafn sitt af þeim. Gangan um gilið er skemmtileg enda litbrigðin mörg. Á aðra hönd er kolsvart Laugahraunið. Það rann þegar Brennisteinsalda gaus árið 1480. Á hina höndina er Bláhnjúkur sem er 945 m.y.s. Hann er því sem næst alveg gróðurlaus og talinn vera um 50.000 – 90.000 ára gamall. Afar vinsælt er að ganga á hann enda útsýni mikið. Kíktu á gönguleiðalýsingu á hann hér.
Þegar við göngum yfir Laugahraunið í átt að Brennisteinsöldu má sjá hversu gróft og kolsvart það er. Í sjálfu sér ekki undarlegt að hér hafi ferðamaður villst á árum áður og orðið úti. Við höldum okkur hinsvegar við stíga sem leiða okkur að hverasvæðinu við Brennisteinsöldu. Þar sjáum við eitt af litskrúðgri fjöllum landsins og ekki skrýtið að hér dvelji göngumenn í nokkurn tíma. Hægt er að ganga á Brennisteinsöldu sem er 855 m.y.s. og má sjá lýsingu hér.
Við höldum hinsvegar í áttina tilbaka og göngum sem leið liggur að skála FÍ eftir greinilegum stíg troðnum af þúsundum Laugavegsfara á hverju sumri.