Bráðnauðsynleg kvöld- eða seinnpartsganga frá skála Ferðafélags Íslands í Emstrum. Þokkalega vinsæl leið hjá þeim sem ganga Laugaveginn og eiga orku eftir til gönguferða eftir afrek dagsins. Við göngum upp brekkuna frá skálanum og eftir stutta vegalengd sjáum við slóða er liggur á ská til hægri. Við eltum hann upp á hálsinn og út eftir hálsinum eins langt og hægt er. Þaðan förum við niður að gilinu og fylgljum því til baka þar að við nálgumst akveginn. Færum okkur þá niður að skálunum aftur.
Á þessum slóðum eru gljúfrin hvað stórfenglegust og ná allt að 200 metra dýpi. Litir, dýpt og fjölbreytileiki skapa þarna ótrúlega veröld sem þó er aðeins hægt að upplifa sem fuglinn fljúgandi. Við hin verðum að láta okkur nægja að setjast á brúnina og njóta útsýnisins. Markarfljót á upptök sín í Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli og frá Hrafntinnuskeri. Það er 100 km. langt.
Gljúfrin eru talin hafa orðið til í hamfarahlaupi fyrir um 2000 árum síðan. Eftir að fljótið kemur niður af hálendinu dreifir hún úr sér og flæddi áður yfir land og braut það niður. Varnargarðar hafa verið smíðaðar svo hún er nú að mestu viðráðanleg. Fyrsti varnargarðurinn var gerður við Seljaland árið 1910. Markarfljótið hefur líka gert margt gott því framburður þess hefur myndað mikið af láglendinu t.d. í Landeyjum en eftir síðustu íslöld er talinn hafa verið þar mikill fjörður.