Fallegt dalverpi og því ansi ljúf gönguleið sem leiðir okkur umhverfis Botnsvatn. Ekið er upp úr miðjum Húsavíkurbæ, eftir Ásgarðsvegi og eftir um 3 mín akstur blasir vatnið við. Verulega fallegt útivistarsvæði og líklega vel nýtt af Húsvíkingum. Við leggjum á bílastæðinu og göngum umhverfis vatnið og endum á sama stað aftur.
Botnsvatn er ekki stórt eða um 1km2 á stærð en liggur í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli. Í því er einhver veiði, helst þá bleikja. Úr vatninu rennur Búðará og fer í hún í gegn um Húsavík á leið sinni til sjávar.
Á góðviðrisdögum má oft sjá þarna fjölda fólks, fjölskyldur í lautarferðum, börn á hornsílaveiðum og ekki síður göngumenn á röltinu. Húsavíkurfjall gnæfir nokkuð bratt yfir norðanverðum hluta vatnsins.