Valmynd leiðarkerfis
Rauðibotn, Hólmsárlón

Rauðibotn, Hólmsárlón

Rauðibotn, Hólmsárlón

Hálendið

Ekki mjög fjölfarin leið en þó skemmtileg og alls ekki löng né erfið. Við hefjum gönguna við bílastæði austan Hólmsár á Mælifellssandi. Þaðan er nokkuð greinileg slóð sem liggur í norðvestur. Við fylgjum henni en stefnan er tekin á eystri brún Rauðabotns. Þaðan göngum við svo í hlíðum austan Hólmsárlóns. Ekki er um greinilegan stíg að ræða frá Rauðabotni inn með Hólmsárlóni. Við göngum hér um það sem margir segja að sé ein af vel földum perlum  hálendisins. Rauðibotn er hluti af Eldgjársprungunni og sjá göngumenn vel móta fyrir þessum stóra gíg á göngunni.

Litadýrðin er ansi sérstök þegar þessi leið er gengin. Í upphafi er gengið um gamalt, mosavaxið hraun en um leið og Rauðibotn blasir við breytist landslagið. Rautt gjall eða hraun einkennir þá undirlagið og mætti helst líkja þessu við Ljótapoll án vatnsins. Fljótlega breytist landslagið aftur.

Við blasa Hólmsárlón með sínum margbreytilega og sérkennilega lit. Grænt, blátt, dimmt, svart, sérstakt, óskýranlegt eru lýsingarorð því litirnir á vatninu eiga engan sinn líka. Þegar horft  er upp í hlíðarnar skartar mosinn engu síðri litum en vatnið. Ekki má gleyma að minnast á fossa þá er myndast þegar Hólmsárlón fellur niður í Rauðabotn. Þeim má enginn missa af.

Við göngum með hlíðum Hólmsárlóns langleiðina inn í dalverpi þar sem Strútslaug liggur. Fyrir þá sem hafa kost á er hægt að útbúa ágætis hringleið úr þessu. Skella sér í bað í Strútslaug og ganga tilbaka niður að Strútsskála. Við hin höldum sömu leið til baka.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Einkabíll

Skildu eftir svar

Listings

Rauðibotn, Hólmsárlón

0