Valmynd leiðarkerfis
Ófæruhöfði (Ófæra)

Ófæruhöfði (Ófæra)

Ófæruhöfði (Ófæra)

Hálendið

Ófæra ( 860 m.y.s.) eða Ófæruhöfði er skemmtilegt fjall sem flestir aka eða ganga framhjá. Það liggur því sem næst mitt á milli Hvanngils og Álftavatns. Útsýni af fjallinu er æði skemmtilegt og þá sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að hækkun er ekki nema tæpir þrjú hundruð metrar. Hægt er að leggja bílnum við smá útskot á veginum rétt í þann mund er hann lækkar niður í átt að Álftavatni og skörp beygja er á honum. Gengið er á ská upp fjallið og í sjálfu sér engin ein leið betri en önnur.

Flestir hafa veitt fjallinu athygli þegar þeir ganga Laugaveginn en rétt áður en farið er niður Jökultungur, stóru brekkuna niður að Álftavatni er komið að gili. Vinsælt er að taka mynd niður þetta gil en þá blasa oft við tvö fjöll, Ófæruhöfði og Útigönguhöfði. Í raun má segja að fjallið hafi tvö nöfn. Syðri „tindurinn“ heitir Ófæra og er um 760 metra hár en sá nyrðri nefnist Ófæruhöfði og er um 860 metrar. Mitt á milli þeirra er reyndar annar „toppur“ sem einnig er um 860 metra hár.

Okkar gönguleið liggur á annan hærri tindinn en þar er ansi gott útsýni. Til suðurs má sjá Stórkonufell beint framundan og litlu lengra Tindfjallajökul, Hattfell og niður að Emstrum. Mýrdals- og Eyjafjallajöklar sjást einnig afskaplega vel. Nær má sjá bæði Hvanngil og Álftavatn og oft er gaman að liggja um stund og fylgjast með göngu- og bílaumferð. Hún getur verið glettilega mikil á góðum degi. Til austurs má sjá eftir Mælifellssandi og ef vel viðrar yfir á Vatnajökul.

Í stuttu máli ljómandi fín gönguleið á fáfarnar slóðir.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

    Skildu eftir svar

    Listings

    Ófæruhöfði (Ófæra)

    0