Valmynd leiðarkerfis
Heiðmörk

Heiðmörk

Heiðmörk

Höfuðborgarsvæðið

Það er ansi víða hægt að ganga í Heiðmörk enda dásamlegt útivistarsvæði og það rétt við borgarmörkin. Hér er ein leið, stuttur hringur sem hefst á bílastæðinu rétt við Maríuhella. Ekið er framhjá Vífilsstaðavatni og Vífilsstaðahlíð og þá birtist stæðið strax á vinstri hönd. Þaðan liggur stígur beint áfram meðfram hlíðinni. Við fylgjum honum að skemmtilegu afþreyingarsvæði og þar förum við yfir veginn. Þar sjáum við breiðan malarstíg, reiðleið sem við fylgjum til baka á bílastæðið.

Vífilsstaðahlíð varð hluti af Heiðmörk árið 1958 en var áður í eigu ríkisspítalanna. Hún er ekki há eða um 150 metrar en eigi að síður ágætis útsýni þar ef fólk vill príla á toppinn. Best er þó að gera það frá bílastæðinu við  Vífilsstaðavatn. Á okkar stíg má sjá vel hversu skemmtilegt umhverfi hraunið og kjarrið útbýr fyrir göngumenn. Mikið hefur verið plantað á svæðinu og eru víða skilti sem sýna hverjir það hafa gert.

Þegar við komum að grillaðstöðunni göngum við upp í hlíðina þar við hliðina á en þar finnum við trjásýnisafn Skógræktarfélags Reykjavíkur. Upplagt að kíkja á það en því miður virðist því bara haldið við yfir hásumartímann. Við færum okkur svo yfir veginn og nú sem áður göngum við í Búrfellshrauni. Það kemur úr Búrfelli sem Búrfellsgjá er kennd við. Það gaus í einu flæðigosi fyrir um 7000 árum. Flatarmál þess er um 18 ferkílómetrar og er stærri hluti Hafnarfjarðar og Garðabæjar byggður á því. Við getum því rétt ímyndað okkur hversu gríðarlegt sjónarspil gosið hefur verið.

Búrfellshraun er nafn á heildarhrauninu en minni hlutir þess hafa sérstök nöfn. Má þar nefna Smyrlabúðarhraun, Stekkjarhraun, Hafnarfjarðarhraun og Helgadalshraun. En við látum nöfnin ekki á okkur fá en höldum áfram göngu okkur að upphafsstað ferðar.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Einkabíll

Skildu eftir svar

Listings

Heiðmörk

0