Valmynd leiðarkerfis
Héðinsfjarðarvatn

Héðinsfjarðarvatn

Héðinsfjarðarvatn

Norðurland
  • Erfiðleikastig: 1
  • Vað: Eitt vað, nokkuð stórt. Nokkrar smásprænur.
  • Næsta þéttbýli: Siglufjörður
  • Hækkun: Um 1m.
  • Samgöngur: Áætlunarferðir
  • Flokkur: ,

Með tilkomu jarðganga á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar opnaðist það göngugósenland sem Héðinsfjörður er. Kannski sjarminn og dulúð fjarðarins hafi minnkað eitthvað en aðgengið batnað. Hér göngum við umhverfis Héðinsfjarðarvatn sem er stutt og þægileg ganga. Við leggjum bílnum á gott bílastæði norðan vegar og göngum réttsælis vatnið. Reynum að trufla þá sem þarna eru með lóðir austan vatnsins sem minnst og endum svo við bílastæðið aftur.

Héðinsfjarðarvatn er ekki mjög stórt, aðeins um 1,7km2 á stærð og eins merkilegt og það er aðeins 3 metrum yfir sjávarmáli. Héðinsfjörður sjálfur er um 6 km langur og 1 km breiður. Þar var byggð allt fram til 1857.

Í vatninu er eitthvað um fisk, helst þá vatna- og sjóbleikja og er stærð hennar á bilinu 1 – 5 pund. Dýralíf er mikið við vatnið, eitthvað er um ref og töluvert um fugl. Áður en göngin komu til var fuglinn frekar gæfur enda ekki mikið um mannaferðir á svæðinu.

Eitt hörmulegasta flugslys Íslandssögunnar gerðist í Héðinsfirði árið 1947 þegar DC 3 flugvél Flugfélags Íslands fórst hér með öllum sem um borð voru, alls 25 manns. Minnismerki um slysið og þá sem létust er nyrst í firðinum.

Við höldum göngu okkar áfram og virðum fyrir okkur fuglalífið. Ekki ósjaldan er vindur inn fjörðinn og getur golan orðið köld enda við komin ansi norðarlega. Við förum svo þvert yfir fjörðin á Víkursandi og hér þurfum við að þvera ána sem rennur úr vatninu stuttan spöl til sjávar. Gott er að hafa vaðskó enda botninn grýttur.

Litlu norðar, austan megin í firðinum sjáum við til Víkurhóla og ofan þeirra Víkurdals. Framan við hólana var bærinn Vík sem fór í eyði árið 1951. Upp Víkurdal og í Hvanndali er góð og falleg gönguleið sem endar í Ólafsfirði.

Við göngum áfram meðfram vatninu og rétt við sumarhús sem þarna eru má sjá lítt greinilega tóttir af bænum Vatnsenda sem þarna stóð en fór í eyði árið 1949. Við ljúkum svo göngunni á bílastæðinu.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Áætlunarferðir

Skildu eftir svar

Listings

Héðinsfjarðarvatn

0