Valmynd leiðarkerfis
Álftaskarð við Álftavatn

Álftaskarð við Álftavatn

Álftaskarð við Álftavatn

Hálendið

Létt og þægileg gönguleið meðfram vatninu að Álftaskarði. Auðrötuð en við hefjum gönguna við skála Ferðafélags Íslands og göngum að skarðinu sem sjá má svo til beint til vesturs. Ekið er í gegnum skarðið rétt hægra megin við skútann sem við stefnum á. Farin er svo sama leið til baka.

Á síðustu og þar síðustu öld er talið að leitarmenn hafi haft hér næturstað. Var þá mun meira hlaðið fyrir skútann og jafnvel er talið að dyr hafi verið fyrir. Þótti þetta ágætasti næturstaður. Líklega mundu ekki margir gera sér þetta að góðu sem næturstað í dag.

Á leiðinni til baka er ágætt að virða fyrir sér Álftavatn. Það er talið vera dýpst tæplega 40 metrar en víða er það mjög grunnt. Í vatninu er svolítið um silung og hafa skálaverðir svæðisins oft komið sér upp netum og veitt í matinn af og til. Ekki er þó hægt að segja að fiskurinn sé stór sem þarna veiðist.

Í vatninu drukknaði árið 1838 Benedikt Erlingsson bóndi í Fljótsdal sem er innsti bærinn í Fljótshlíð. Var hann á álftaveiðum við vatnið, ætlaði sér að ríða á eftir þeim og veiða. Hestur hans féll fram af bakka í vatninu og drukknaði Benedikt. Enginn vissi hvað hafði orðið af honum fyrr en hann birtist konu sinni í draumi. Sagðist hann vera undir klettanös ofan í vatninu og reyndist það rétt vera.

Á göngunni til baka blasir við okkur Brattháls og aðeins sunnar svokallaðar Klámbrekkur. Hafa margir stungið upp á því að gönguleiðin Laugavegur ætti að liggja þarna um en þá þarf ekki að ganga eftir akvegi stærsta hlutann niður í Emstrur. Gallinn er þó sá að straumvötnin eru mun skæðari á þessari leið.
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Einkabíllinn

Skildu eftir svar

Listings

Álftaskarð við Álftavatn

0