Valmynd leiðarkerfis
Sveinstindur – Skælingar – Hólaskjól

Sveinstindur – Skælingar – Hólaskjól

Sveinstindur – Skælingar – Hólaskjól

Hálendið
  • Erfiðleikastig: 2
  • Vað: Eitt meðalstórt
  • Næsta þéttbýli: Kirkjubæjarklaustur
  • Samgöngur: Einkabíllinn
  • Flokkur: ,

Líklega ein stórfenglegasta gönguleið landins. Náttúran, fjölbreytni hennar og kyngikraftur leikur á alls oddi á þessari 2 – 3ja daga gönguleið sem hefst við Sveinstind og endar í Hólaskjóli. Það er varla hægt að lýsa leið sem þessari en veikburða tilraun verður þó gerð hér til þess.

Dagur 1:
Gangan hefst við Sveinstind, nánar tiltekið við skála Útivistar sunnan Sveinstindar og rétt norðan við Skaftá. Margir kjósa að hefja leiðina með því að ganga á Sveinstind að norðan, frá Langasjó, yfir hann og niður í skálann. Eindregið er mælt með því, sérstaklega ef skyggni er gott því af Sveinstindi er stórfenglegt útsýni.

Sjá nánar um göngu á Sveinstind hér. Reikna má með að gangan taki um 4 klst. með útsýnisstoppum og hentar því vel að aka úr byggð snemma morguns, að Langasjó, ganga á Sveinstind og þaðan í skálann.

Dagur 2:
Þægileg ganga þennan dag, lítið um hækkun og stórfenglegt landslag blasir við göngufólki hvert sem litið er.

Í fyrstu er gengið meðfram Skaftá um mosavaxnar hlíðar. Ber sérstaklega að geta þess að halda sig við stíginn, ganga í einfaldri röð til að halda troðningi í lágmarki. Fljótlega blasa Uxatindar við í allri sinni dýrð en fyrst er farið yfir Hvanngil, þaðan í Uxatindagljúfur á milli Grettis og Uxatinda.

Á köflum er leiðin óskýr, sérstaklega í upphafi sumars og því mikilvægt að halda sig við stikaða gönguleiðina. Umhverfið við Uxatinda er eitt það fallegasta en um leið sérkennilegasta á hálendi Íslands. Grænar og bláar tjarnir, sérkennilegur og tígulegur mosi kallast á við snarbratta, oddhvassa Uxatindana.

Þegar gengið úr gljúfrunum er gil eitt elt og kann það að vera grýtt á köflum. Fara ber varlega, sérstaklega fyrripart sumars þegar undir snjósköflum geta leynst holur.

Stutt er frá gljúfrunum að Skælingum eða Stóragili þar sem afar skemmtilegur skáli Útivistar bíður göngufólks. Uppgert sæluhús og gisting þar hálfgert ævintýri þá sérstaklega ef yngri kynslóðin er með í för. Umhverfi skálans er sem ævintýraland, magnaðar hraunmyndandir úr Skaftáreldum. Ef þetta er ekki staðurinn til að rifja upp eina eða tvær álfa- og tröllasögur.

Dagur 3:
Þennan dag liggur leiðin örlítið á brattan þvi fljótlega eftir að gangan hefst höldum við svo til beint til norðurs í átt að Gjátindi. Rétt í þann mund sem við komum að honum má velja um tvær leiðir. Annars vegar meðfram honum og niður í Eldgjá eða upp á Gjátind og svo sömu leið aftur niður í Eldgjá. Ef veður er gott er það fyllilega þess virði að leggja á sig þennan rúma klukkutíma sem gangan tekur.

Hvor leiðin sem er valin fá göngugarpar að njóta ótrúlegs útsýni yfir Eldgjá og í raun eftir henni endilangri. Litadýrðin er sérstök og líklega þarf mikið ímyndunarafl til að gera sér í hugarlund þær hamfarir sem sköpuðu þessa stærstu gossprungu landins fyrr og síðar. Lestu þér nánar til um Eldgjá hér. 

Eftir Eldgjá er gengið á jafnsléttu alveg niður að bílastæðinu. Á leiðinni er að sjálfsögðu stoppað við Ófærufoss sem er fallegur foss en það skal þó viðurkennast að fallegri var hann þegar steinbrúin var yfir neðri hluta hans. Strax eftir að bílastæðinu sleppir beygjum við til vinstri meðfram ánni og er það skemmtilegur hluti að ganga. Nú styttist í Hólaskjól þar sem gangan endar.

 
 

Myndir

Lengd gönguleiðar

  • Samgöngur: Einkabíllinn

Skildu eftir svar

Listings

Sveinstindur – Skælingar – Hólaskjól

0